Á sínu látlausa heimili í Græna Kalahari hlustaði hin 92 ára gamla Katrina Esau af athygli á tvö langafabörn sín æfa sig í hinu forna N|uu-tungumáli frumbyggjaþjóðarinnar San í Suður-Afríku.
Þegar börnin sungu af ákafa greip Esau stundum fram í til að leiðrétta framburð þeirra á sérstæðum hljóðum og djúpum smellihljóðum móðurmáls síns, en hún er síðasti mælandinn sem hefur það að móðurmáli og talar það reiprennandi.
Gestir á heimili fjölskyldunnar nálægt bökkum Óraníufljóts í Norður-Höfðahéraði lögðu einnig stoltir nokkur orð á N|uu í belg til að heiðra viðleitni ættmóðurinnar til að halda á lífi tungumáli sem vísindamenn segja að sé 25.000 ára gamalt og í útrýmingarhættu.
Á veggjunum voru myndir af hinni hæglátu, virðulegu og þokkafullu Esau með kórónu og kraga úr dýrahúð, fjöðrum og broddum sem táknuðu stöðu hennar sem drottningu í N||ǂʻe-ætt San-fólksins, einni elstu menningu Suður-Afríku.
Esau, sem er betur þekkt sem „ouma“ eða amma, er staðráðin í að halda N|uu á lífi.
Hún fæddist árið 1933 á bóndabæ nálægt Olifantshoek í suðurhluta Kalahari-eyðimerkurinnar, um 150 kílómetra frá landamærunum að Botsvana.
Foreldrar hennar unnu fyrir hvíta fjölskyldu sem talaði afríkönsku, tungumál hollensku landnemanna.
„Við ólumst upp við erfiðar aðstæður. Á bænum vann móðir mín í eldhúsinu, þvoði þvott, straujaði og skúraði gólf,“ sagði hún.
„Ég fæddist inn í tungumálið, ég drakk það í mig. Sem börn töluðum við aldrei afríkönsku, við töluðum bara N|uu,“ sagði Esau í samtali við AFP.
En ef bóndinn heyrði í þeim þá rak hann þau í burtu og sagði: „Þið eruð að tala ljótt tungumál – farið heim!“ rifjaði Esau upp.
Faðir hennar varaði börnin við því að tala N|uu á heimili vinnuveitandans af ótta við að „þau myndu drepa okkur“, sagði hún.
Þegar þau uxu úr grasi hættu þau alveg að tala N|uu og töluðu aðeins afríkönsku.
N|uu tilheyrir Tuu-málaættinni sem upphaflega var töluð í Suður-Afríku og Botsvana en margar mállýskur hennar eru þegar útdauðar, sagði Bradley van Sitters, fulltrúi Pan South African Language Board.
Missir þeirra var „kerfisbundinn og vísvitandi“ þáttur í kúgun San- og Khoekhoe-þjóðanna sem voru neyddar í þrælkun, sagði hann.
„Tungumál þessara frumbyggja voru stranglega bönnuð [...] og þeir voru neyddir til að starfa innan hagkerfis sem einkenndist af nýlendumálunum,“ sagði van Sitters við AFP.
Til eru munnlegar sagnir af ómannúðlegum refsingum foreldra sem kenndu börnum sínum frumbyggjamál, sagði hann.
Fyrir Esau var það eins og „sár“ að geta ekki talað móðurmál sitt. Hún segir að enn séu til orð á N|uu sem hún finnur enga samsvörun fyrir á afríkönsku.
„Það var beiskt og er enn beiskt að vera sú eina sem getur talað málið,“ sagði hún.
Sem hluti af baráttu sinni fyrir endurvakningu N|uu stofnuðu hún og barnabarn hennar, Claudia Snyman, skóla fyrir tungumálið, þar sem notast er við sérstaka stafi í ritmáli til að tákna smellihljóðin.
Þær sömdu fyrstu barnabókina á N|uu, „!Qhoi n|a Tijho“ („Skjaldbakan og strúturinn“), sem kom út árið 2021, lögðu sitt af mörkum til fyrstu N|uu-orðabókarinnar og vinna nú að smáforriti fyrir tungumálið.
„Það var erfitt að læra tungumálið en ég gafst ekki upp,“ sagði Snyman, 33 ára. „Um leið og ég heyrði það í fyrsta sinn vaknaði áhugi minn og ég vissi að ég myndi halda því áfram.“
„Við reynum allt til að bjarga tungumálinu,“ sagði hún.
Esau fór aldrei í skóla en árið 2023 var hún sæmd heiðursdoktorsnafnbót í bókmenntum frá Háskólanum í Höfðaborg fyrir viðleitni sína til að bjarga N|uu.
Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi heiðrað hana sem „lifandi mannlegan fjársjóð“ og boðið henni á hátíð til að fagna suðurafrískri arfleifð á hún í fjárhagserfiðleikum.
Til þess að N|uu lifi af, sagði hún, þyrftu stjórnvöld að greiða styrki til þeirra sem eru tilbúnir að leggja á sig þá vinnu sem þarf til að halda því á lífi.
Sonur Esau, Prince Charles Tities, er stoltur.
„Ég er glaður að hún reynir af öllum mætti og allri sinni orku að koma þessu tungumáli áfram,“ sagði hann við AFP.
„Það hryggir mig að hugsa til þess að einn daginn, þegar hún er ekki lengur hér, hvað verður þá um tungumálið?“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
