Hamas hryðjuverkasamtökin hafa afhent fyrstu sjö af þeim 20 gíslum sem er á lífi til fulltrúa Rauða krossins í Gasaborg en allir gíslarnir verða látnir lausir í dag í samræmi við skilmála vopnahléssamkomulags sem Hamas og Ísrael samþykktu í síðustu viku.
Alls eru 48 gíslar í haldi Hamas en aðeins 20 þeirra eru á lífi. Í skiptum fyrir gíslana mun Ísrael leysa um 1.900 palestínska fanga sem eru í fangelsum í Ísrael.
Búist er við því að gíslarnir verði fluttir með flugi til herstöðvarinnar Reim í suðurhluta Ísraels.
Á gíslatorginu svonefnda í Tel Aviv eru mikil fagnaðarlæti en þúsundir manna og fjölskyldur gíslanna eru saman komin þar til að fagna frelsi gíslanna.
Donald Trump Bandaríkjaforseti er væntanlegur til Ísraels fyrir hádegi í dag en hann mun síðan halda til Egyptalands á fund þar sem 20 þjóðarleiðtogar ræða næstu skref í friðarferlinu.
„Við höfum beðið í 738 daga eftir að segja þetta: „Velkomin heim,“ birti ísraelska utanríkisráðuneytið færslu á samfélagsmiðlinum X og benti á þá sem voru látnir lausir sem eru: Omri Miran, Matan Angrest, Ziv Berman, Gali Berman, Guy Gilboa-Dalal, Alon Ohel, og Eitan Mor

