Grunur beinist að dóttur sjálfs bæjarstjórans

Lögregla og sjúkralið á vettvangi í Þýskalandi í síðustu viku.
Lögregla og sjúkralið á vettvangi í Þýskalandi í síðustu viku. AFP

Iris Stalzer, nýkjörinn bæjarstjóri í Herdecke sem varð fyrir hnífstunguárás á þriðjudag í síðustu viku, segir sautján ára gamla ættleidda dóttur sína hafa verið að verki.

Þýska lögreglan hefur greint frá þessum vitnisburði bæjarstjórans, sem fannst á heimili sínu með alvarlega áverka eftir árásina.

Stalzer er ekki lengur í lífshættu. Dóttirin var færð í gæsluvarðhald eftir árásina og sömuleiðis fimmtán ára sonur Stalzers, sem einnig er ættleiddur.

Iris Stalzer, bæjarstjóri Herdecke.
Iris Stalzer, bæjarstjóri Herdecke. AFP

Vakti hneykslan

Rannsakendur segjast hafa fljótlega fundið „marktækar sannanir“ í húsinu sem urðu til þess grunur beindist að börnunum.

Fyrstu fregnir af árásinni í síðustu viku vöktu hneykslan og meðal annars fordæmingu þýska kanslarans Friedrichs Merz. Þá var greint frá því að sonur Stalzers hefði fundið hana þungt haldna á heimili þeirra með stungusár á baki og kvið.

Mun hann hafa tjáð lögreglu frá því að nokkrir menn hefðu gert að henni aðsúg úti á götu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert