Engin lausn virðist vera í sjónmáli í deilu varðandi útgjöld og rekstur bandarískra ríkisstofnana sem hafa verið lokaðar í hálfan mánuð. Pattstaða ríkir í þinginu og lokunin hefur nú þegar kostað mörg þúsund störf.
Á sama tíma og mörg hundruð þúsund ríkisstarfsmenn eru frá vinnu fylgir Donald Trump Bandaríkjaforseti eftir hótunum sínum um að fækka verulega í starfsliðinu til að þrýsta á demókrata að samþykkja fjármögnunarkröfur repúblikana.
Trump hefur heitið því að finna leið til að greiða hermönnum laun sem annars yrðu án launa í fyrsta sinn, þótt óvissan hafi þegar leitt til þess að hermenn hafa myndað langar raðir eftir matvælaaðstoð.
Þá hefur forsetinn varað við því að áframhaldandi neitun demókrata um að styðja ályktun sem fulltrúadeildin hefur samþykkt um að fjármagna stjórnkerfið fram í lok nóvember muni leiða til fjöldauppsagna sem beinast að starfsmönnum sem taldir eru hliðhollir stjórnarandstöðunni.
„Við erum að leggja niður nokkrar áætlanir sem við viljum ekki. Svo vill til að þær eru áætlanir á vegum demókrata,“ sagði Trump við fréttamenn.
„En við erum að leggja niður nokkrar áætlanir sem við vildum aldrei og við munum sennilega ekki leyfa þeim að koma aftur.“
J.D. Vance, varaforseti Bandaríkjanna, sagði við Fox News um helgina að demókratar gætu búist við frekari þrengingum ef þeir gæfu ekki eftir.