Hvetja Trump til að tryggja að árásir Ísraela hefjist ekki á ný

Fjölskylda og vinir ísraelska gíslsins Eitan Horn bregðast við fréttum …
Fjölskylda og vinir ísraelska gíslsins Eitan Horn bregðast við fréttum af lausn hans í morgun. AFP

Hamas hryðjuverkasamtökin hvetja Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og milligöngumenn vopnahlésins á Gasa til að tryggja að Ísrael hefji ekki aftur hernaðaraðgerðir á svæðinu.

„Við fögnum yfirlýsingu Donalds Trump Bandaríkjaforseta, þar sem hann staðfesti skýrt lok stríðsaðgerða Ísraels á Gasaströndinni,“ sagði Hazem Qassem, talsmaður Hamas, í samtali við AFP-fréttaveituna.

Í morgun var öllum 20 eftirlifandi gíslum sleppt úr haldi á Gasa og fyrsta rútan af 38 sem flytja palestínska fanga úr fangelsum í Ísrael er komin til Gasa.

„Við hvetjum alla milligöngumenn og alþjóðlega aðila til að halda áfram að fylgjast með hegðun Ísraels og tryggja að þeir taki ekki upp árásir gegn fólki okkar í Gasa á ný,“ segir talsmaður Hamas.

Friedrich Merz, kanslari Þýskalands, fagnar lausn 20 eftirlifandi ísraelskra gísla af Hamas og segir þetta skref í átti að friði í Mið-Austurlöndum.

„Tvö ár af ótta, sársauka eru að baki. Í dag geta fjölskyldur loksins faðmað ástvini sína aftur,“ skrifar Merz í færslu á samfélagsmiðilinn X eftir afhendingu gíslanna, en nokkrir þeirra eru þýskir ríkisborgarar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert