Þótt íbúar víða á Spáni kvarti yfir of miklum ágangi ferðamanna heldur Benidorm enn fast við þá stefnu, sem þar var mótuð á valdatíma Franciscos Francos einræðisherra á Spáni, að taka á móti eins mörgum ferðamönnum og mögulegt er.
Uppbygging ferðaþjónustunnar í Benidorm, sem byggðist á sólböðum, skýjakljúfum og pakkaferðum, breytti ímynd Spánar í útlöndum og aflaði á sama tíma nauðsynlegs erlends gjaldeyris.
„Hér eru engar bílaverksmiðjur, engar sápuverksmiður. En við höfum verksmiðju hótela, veitingahúsa og fyrirtækja sem miða að því að gera gestina okkar ánægða,“ segir Angela Barcelo, 72 ára eigandi Hotel Les Dunes, við AFP-fréttstofuna.
Amma hennar opnaði hótelið árið 1957 þegar spænskar konur þurftu að fá skriflegt leyfi eiginmanna sinna til að opna bankareikning.
„Benidorm var byggð upp af konum,“ segir Barcelo og rifjar upp að á þessum tíma hafi karlmennirnir á svæðinu einkum sótt sjóinn en konurnar sáu um að stýra fjölskyldufyrirtækjum og opnuðu mörg af fyrstu hótelunum og gistihúsunum í bænum.
Benidorm var eitt sinn sjávarbær þar sem um 3 þúsund manns bjuggu í litlum hvítkölkuðum húsum en er nú borg þar sem yfir 100 skýjakljúfa ber við himin og íbúarnir eru um 400 þúsund þegar mest er að gera í ferðaþjónustunni í ágúst.
Pedro Zaragoza Orts var bæjarstjóri í Benidorm frá 1950 til 1966 og dyggur stuðningsmaður falangista, íhaldssamrar stjórnmálahreyfingar sem tryggði völd Francos. Zaragoza leit svo á að erlendir ferðamenn væru mun öruggari grundvöllur undir efnahag bæjarins en landbúnaður og sjómennska en margir ættingjar hans höfðu farist í sjóslysum.
Árið 1952 veitti Zaragoza leyfi fyrir því að konur mættu klæðast bikiníbaðfötum á baðströndinni og gaf einnig út sérstaka tilskipun um að bannað væri að atyrða konur sem þannig klæddust. Kaþólsku kirkjunni á Spáni leist ekki á blikuna og biskupinn í Alicante hótaði að setja Zaragaoza út af sakramentinu í bókstaflegri merkingu en slíkt þótti mikil skömm á þessum tíma. Zaragoza ákvað þá að tala máli sínu við Franco sjálfan.
Hann sagði síðar, að hann hefði sest á skellinöðruna sína og ekið til Madrid, 9 klukkustunda ferð. „Ég lagði af stað í dögun og kom þangað síðdegis. Ég var með hreina skyrtu til skiptanna en engar hreinar buxur. Svo ég hitti hershöfðingjann í buxum blettóttum af olíu úr skellinöðrunni.“
Franco tók honum vel og í kjölfarið sendi hann eiginkonu sína og dóttur nokkrum sinnum í frí til Benidorm þar sem þær bjuggu á heimili Zaragoza. Það var talið jafngilda yfirlýsingu um að Franco hefði lagt blessun sína yfir áform bæjarstjórans og kirkjan bakkaði.
Að sögn sagnfræðingsins Franciscos Amillo, sem hefur búið í Benidorm áratugum saman, var Zaragoza afar íhaldssamur í skoðunum en hann gerði sér grein fyrir því að Spánn þyrfti að opna dyr sínar fyrir umheiminum. Og eftir að bikiníbaðfötin voru leyfð margfölduðust tekjur bæjarins í erlendum gjaldmiðum.
Zaragoza reyndist slyngur í að vekja athygli á Benidorm. Þannig bauð hann eitt sinn Samafjölskyldu frá Finnlandi að dvelja í Benidorm og það fékk umfjöllun í norrænum fjölmiðlum. Hann kom einnig á fót Benidorm-söngvakeppninni þar sem spænski dægurlagasöngvarinn Julio Eglecias hóf m.a. söngferil sinn.
Þessi sala sólar og sjávar gekk vel í Benidorm og varð fyrirmynd annarra ferðamannastaða á Spáni. Ferðaþjónustan í landinu óx hratt og þangað komu 94 milljónir ferðamanna á síðasta ári en aðeins Frakkland fær heimsóknir fleiri ferðamanna. Um 2,8 milljónir þessara ferðamanna komu til Benidorm.
Bærinn var lengi gagnrýndur fyrir skýjakljúfana og mannmergðina á sumrin en á síðari árum hefur Benidorm fengið hrós fyrir að vera fyrirmynd sjálfbærrar ferðaþjónustu.
Þétt byggðin sparar landsvæði, dregur úr sóun á vatni, gerir kleift að safna úrgangi og rusli hraðar en ella og einnig er minni þörf á bílum, að sögn Vicente Mayor, aðstoðaryfirverkfræðings Benidorm.
„Þótt það hafi verið litið niður á háar byggingar og þéttleika byggðar er lóðrétt uppbygging byggðarinnar mjög skilvirkt skipulag,“ hefur AFP eftir honum.
Erlendir fastagestir eru margir og láta sér fátt um finnast þótt öðrum þyki lítið til bæjarins koma.
„Þegar ég segir vinum mínum að ég sé að fara til Benidorm segja þeir: það er hræðileg borg. En þeir þekkja hana ekki og hafa aldrei komið þangað. Þeir hafa bara séð myndir af skýjakljúfunum,“ segir Maribel Soler, 68 ára gömul frönsk kona, sem líkir Benidorm við New York. „Og ég elska New York!“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
