Yfirstjórn lögreglunnar á Austur-Jótlandi í Danmörku neitar staðfastlega því sem nú er á hana borið – að þar hafi sérstakir hópar lögreglumanna verið settir saman, „taskforces“ sem danska ríkisútvarpið DR kallar svo, í því augnamiði að fella niður mörg hundruð mál sem lögregla hafði til rannsóknar að nafninu til en enginn sinnti í raun.
Þrír lögregluþjónar ræða nafnlaust við DR og greina frá því að hóparnir hafi verið settir á laggirnar til að fella vandræðamál þessi niður fyrir hver áramót sem hafi ekki verið nein tilviljun hvað tímasetningu snertir – tölfræði hvers árs væri byggð á fjölda ólokinna mála við áramót og embættið þurft að snyrta þá tölfræði verulega svo pólitísk markmið um fjölda útistandandi mála næðust. DR talar um „lögregluþvott“, „politivask“, í tilfelli mörg þúsund mála sem lögð hafa verið niður fyrir áramót.
Einn heimildarmannanna þriggja segir DR frá því að haustið 2022 hafi yfirmaður hans komið að máli við hann. „Mér var sagt að á mánudeginum eftir ætti ég að mæta í nýja deild, „taskforce“, sem ætti að vinna með efnahagsbrot,“ segir maðurinn sem kom tilkynningin spánskt fyrir sjónir – hann hafði enga reynslu af rannsóknum á efnahagsbrotum.
Hann gerði sem umbeðið var og þegar mánudagurinn rann upp sat hann ásamt hópi lögreglumanna, sem hann hafði ekki starfað með áður, í herbergi þar sem rannsóknir „efnahagsbrota“ skyldu nú hefjast. Segir hann frá því að yfirmaður hafi þá komið inn með pappírsbunka mikinn og tilkynnt þeim að þetta væri bara hluti málanna.
„Ég spurði hvað við ættum að gera og fékk þau svör að ekki væri til þess ætlast að við leystum á milli fjögur og fimm hundruð efnahagsbrot. Málin ættu bara að vera á borðum einhverra svo það liti út fyrir að verið væri að vinna í þeim,“ segir hann frá.
Lögreglumennirnir þrír sem ræða við DR greina frá því að frá 2022 hafi þetta fyrirkomulag orðið árviss viðburður, að „taskforce“-hóparnir hafi verið skipaðir beinlínis til þess að koma óleystum málum út úr heiminum og leggja þau niður.
„Ákvarðanir um þetta eru teknar hjá yfirstjórninni,“ segir annar heimildarmannanna. „Þrátt fyrir spurningarmerki frá öðrum yfirmönnum og siðferðilega streitu meðal þeirra sem í afgreiðsluhópunum sérstöku sitja var mönnum sagt að halda áfram að loka málum með þeim skilaboðum að þar væri um ákvörðun yfirstjórnar að ræða,“ segir hann.
Tölfræði embættisins fyrir haustið 2024 sýnir að á þremur mánuðum voru 2.990 mál, sem sneru að auðgunarbrotum á netinu, felld niður. Lagði DR spurningar um málið fyrir æðstu stjórnendur lögreglunnar á Austur-Jótlandi og svaraði Karsten V. Hansen lögreglustjóri með svofelldum orðum:
„Við höfum ekki skipað neina hópa sem höfðu þann eina tilgang að leggja mál niður. Við höfum unnið markvisst að því að komast að niðurstöðum um mikinn fjölda mála sem hafa safnast upp og hvert mál verður þar metið fyrir sig. Of mörgum málanna var ekki hægt að sinna vegna manneklu og því höfum við unnið af kappi við að komast að niðurstöðum svo borgararnir fái svör. Í sumum málanna hefur þetta leitt til þess að grunur hefur fallið á menn, þeir verið ákærðir og dæmdir. Í öðrum tilfellum hefur þurft að leggja mál niður vegna þess að ekki var svigrúm til að vinna þau eða sönnunargögn voru ónóg.
Segjast tveir heimildarmannanna hafa látið efasemdir sínar í ljós við yfirstjórnina, annar þeirra sent fjölda tölvupósta sem hann fékk eingöngu munnleg svör við frá næsta yfirmanni sínum, þar á meðal um að fyrirkomulagið væri vilji yfirstjórnar og yfirsaksóknara á ákærusviði.
Hansen lögreglustjóri ítrekar við DR að engin lög hafi verið brotin með fyrirkomulaginu þótt staðreyndin hafi verið sú að þeir sem lögðu málin niður hafi færst undan því að rita nöfn sín undir bréf sem brotaþolum voru svo send og þeim þar tilkynnt að mál þeirra hefðu verið lögð niður.
„Ég tel að við höfum gert starfsfólkinu það alveg ljóst að hvert mál fyrir sig skyldi meta og málum ekki lokað í blindni,“ segir lögreglustjóri, „en engu að síður er það eitt grundvallaratriða málsins að það eru mál sem við rannsökum ekki vegna manneklu,“ segir hann enn fremur og bætir því við að óljúft sé að þurfa að tilkynna borgurunum að mál þeirra verði ekki rannsökuð en málum verði einfaldlega að forgangsraða eftir mikilvægi.
Heimildarmenn DR í þessu máli eru óháðir hver öðrum og vita ekki af hver öðrum. Einn þeirra starfar ekki lengur í lögreglunni en allir sýndu þeir ríkisútvarpinu fram á að þeir störfuðu eða hefðu starfað við það sem hér er til umfjöllunar.
Fréttamenn DR hafa, þar sem það er mögulegt, fengið það staðfest að hluta, á fleiri stöðum innan embættisins á Austur-Jótlandi, að frásagnir heimildarmannanna séu réttar.
Hansen lögreglustjóri segir að lokum að yfirstjórn embættisins hafi aðeins gert áætlun um hvernig vinna mætti á gríðarlegum fjölda óleystra sakamála. Í mörgum tilfellum hafi þurft að meta hvort ráðlegt væri að halda áfram rannsókn mála þar sem brotin sem þau snerust um voru við það að fyrnast.
Skrifar DR að áætlunin sem lögreglustjóri talar um hafi að minnsta kosti gengið upp þar sem tæplega 3.000 efnahagsbrotamál voru felld niður á þremur mánuðum hjá embætti hans í fyrrahaust.