Nauðgaði og myrti 13 ára pilt en nú látinn laus

Ísraelsk herþyrla lendir á palli sjúkrahúss eftir að skipst var …
Ísraelsk herþyrla lendir á palli sjúkrahúss eftir að skipst var á föngum og gíslum í dag. AFP

Palestínumaður sem árið 1989 myrti 13 ára pilt eftir að hafa nauðgað honum er nú á meðal þeirra fanga sem sleppt verður úr haldi Ísraela samkvæmt samkomulagi um vopnahlé á Gasa.

Ahmed Mahmed Jameel Shahada hefur afplánað lífstíðardóm síðustu 36 ár fyrir að hafa myrt Oren Bahrami, táningspilt sem hann narraði inn í musteri í Jaffa áður en hann nauðgaði honum og barði til dauða með járnröri.

Þrátt fyrir að yfirvöld hafi úrskurðað að verknaðurinn hafi ekki verið framinn í hryðjuverkaskyni þá er Shahada einn þeirra 249 palestínsku fanga sem sleppt verður samkvæmt samkomulaginu um skipti á gíslum Hamas-samtakanna fyrir fanga í haldi Ísraela.

Að óbreyttu átti hann ekki að losna úr fangelsi fyrr en árið 2036, að því er fram kemur í umfjöllun breska dagblaðsins Telegraph.

Móðirin agndofa

Móðir fórnarlambsins segir engan innan ríkisstjórnarinnar hafa upplýst hana um að morðingi sonar hennar yrði látinn laus. Í samtali við ísraelska dagblaðið Haaretz segist hún fyrst hafa fengið að vita það þegar blaðið hafði samband.

Ísraelsk yfirvöld lofuðu í síðustu viku að fjölskyldur fórnarlamba palestínsku fanganna yrðu látnar vita ef morðingjar þeirra yrðu látnir lausir.

„Þetta er áfall fyrir mig,“ hefur Haaretz eftir móðurinni. 

„Ég gat aldrei hugsað mér að hann félli undir þennan samning. Það er mjög erfitt að komast yfir þetta. Morðið var ekki viðurkennt sem hryðjuverk og í gegnum árin hefur enginn nokkurn tíma haft samband við okkur. Ég er agndofa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert