Nokkrir látnir eftir átök í Gasaborg

Frá Gasaborg í gær.
Frá Gasaborg í gær. AFP

Nokkrir eru látnir eftir að átök brutust út í Gasaborg á milli Hamas-samtakanna og hinnar svokölluðu Doghmush-ættar.

Eiga átökin að hafa byrjað í síðustu viku er vopnahlé í stríði Hamas og Ísraels tók gildi en náð hámæli um helgina.

Skotbardagar í Gasaborg í gærkvöldi

Að sögn vitna sem ræddu við fréttaveituna AFP undir nafnleynd brutust út skotbardagar í Sabra-hverfi Gasaborgar í gærkvöldi. Vitnin ræddu við AFP undir nafnleynd vegna þess að þau óttast um öryggi sitt. 

Áttu um 200 liðsmenn Hamas að hafa verið í hverfinu og barist þar til Doghmush-ættin var yfirbuguð.

Ættin sökuð um tengsl við Ísraelsmenn

Heimildarmaður innan innanríkisstjórnar Hamas segir við AFP að mannfall hafi orðið á báða bóga.

Hefur sami heimildarmaður sakað Doghmush-ættina um að hafa haft tengsl við Ísraelsmenn og framið fyrir þá morð. Þá tekur hann fram að sextíu manns innan Doghmush-ættarinnar hafi nú verið handteknir.

Doghmush-ættin hefur í yfirlýsingu neitað að hafa átt í samstarfi við Ísrael en gengist við að sumir liðsmanna hafi framið afbrot, þó án frekari útskýringa.

Þá hefur ættin sakað Hamas-samtökin um að hafa undanfarna daga beint spjótum sínum að liðsmönnum ættarinnar m.a. með því að drepa þá, handtaka þá eða brenna hús þeirra.

Eftir valdatöku sína á Gasasvæðinu árið 2007 hafa Hamas-samtökin átt ítrekað í ofbeldisfullum átökum við ýmis gengi á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert