Norsku freigáturnar KNM Bergen og KNM Trondheim voru sprengdar í frumeindir og sukku niður á hafsbotn úti fyrir strönd Andøya í Vesterålen-eyjaklasanum við Nordland-fylki Noregs í september.
Ekkert manntjón varð þó þar sem freigáturnar voru áhafnarlausar þegar Trondheim varð fyrir tundurskeyti frá kafbátnum KNM Uthaug og bandarísk B-2-sprengjuflugvél varpaði svokallaðri Quicksink-sprengju á Bergen sem býr yfir slíkum sprengikrafti að sprengingin lyftir skotmarkinu upp af haffletinum á því andartaki sem sprengjan hæfir mark sitt.
Þessar aðgerðir voru þó ekki framkvæmdar í raunverulegri styrjöld heldur á Atlantshafsbandalagsheræfingunni „Ægi“ sem fram fór í september og voru úr sér gengnar og lúnar freigáturnar, sjósettar 1964 og '65, notaðar sem skotmörk á æfingunni þar sem þeirra tími var einfaldlega kominn.
Ekki eru þó allir á eitt sáttir um aðgerðina á æfingunni og það brot sem hún telst gegn norskum reglum um umhverfisvernd og endurvinnslu.
„Þótt það sé mikið sjónarspil að sprengja og sökkva gömlum farartækjum er það að meginreglunni til ekki eitthvað sem á að gera,“ segir Truls Gulowsen, formaður náttúruverndarsamtakanna Naturvernforbundet, við norska ríkisútvarpið NRK og bendir í framhaldinu á að brotajárni eigi ekki að sökkva í saltan sæ, því skuli skila til endurvinnslu.
Kveðst formaðurinn enn fremur spyrja sig þess hvort norski herinn átti sig á því að kröfur um umhverfisvernd og bann við því að losa úrgang í náttúrunni nái einnig til hans. „Söguleg skipsflök sem liggja á hafsbotni liggja þar vegna þess að þau fórust af óviðráðanlegum ástæðum, þeim var ekki fargað þar. Nú til dags og á friðartímum er þetta eitthvað sem alls ekki telst venjubundið,“ segir Gulowsen.
Talsmenn hersins svara því hins vegar til að flökin tvö geti nú legið sem manngerð rif á hafsbotni en á það blæs náttúruverndarformaðurinn hins vegar. „Þannig virka alþjóðlegir umhverfissáttmálar ekki. Manngerð rif eiga að vera á réttum stöðum og notkun þeirra á að byggja á réttum ástæðum,“ segir hann.
Samtök fiskveiðimanna í Norður-Noregi, Nord Fiskarlag, Hanne Fagertun, segir málið óheppilegt og aðgerðir NATO-herjanna saurgi norskt haf. Félagar í samtökunum hafi vakið máls á áhrifum hávaðasamra hernaðaraðgerða á svæðinu umhverfis Andøya sem hafi bein áhrif á afkomu þeirra þar sem fiskurinn forði sér af svæðinu þegar heræfingar séu haldnar. Það minnsta sem norskir stjórnmálamenn geti gert í málinu sé að finna heræfingunum stað sem komi síður niður á veiðum.
Kyrre Haugen, yfirmaður norska sjóhersins, segir ráðstafanir hafa verið gerðar áður en freigátunum tveimur var sökkt við eyjuna. Embætti fylkismannsins í Nordland hafi verið upplýst og haft með í ráðum og þaðan fengist leyfi og ráðgjöf.
Auk þess hafi sjóherinn sett sig í samband við viðeigandi ráðuneyti og það sveitarfélag sem eyjan tilheyrir. Freigáturnar hafi verið hreinsaðar af öllum spilliefnum áður en þær voru sprengdar.
„Við styðjumst við verklagsreglur í því augnamiði að hlífa lífríki sjávar og veljum tímabil þegar fiskur, hvalir og sjávarspendýr hafa takmarkaða viðveru á svæðinu. Við fylgjumst með og reynum að forðast þau tímabil þegar dýralíf sjávar er í hámarki á svæðinu,“ segir Haugen við NRK og mótmælir ummælum Gulowsens um manngerð rif.
„Reynslan sýnir okkur einmitt að flök á borð við þessi geta dregið að sér fisk, þau verða felustaðir smærri tegunda og geta virkað sem manngerð rif,“ segir hann og rökstyður staðsetninguna með því að á Andøya, þaðan sem gervihnöttum er skotið á loft og stofnunin Andøya Space Defence er staðsett, sé tækjabúnaður sem safni gögnum við vopnaprófanir.
„Öryggispólitíska staðan er tvísýn. Við verðum að prófa að vopnin okkar virki eins og þeim er ætlað og það krefst ósvikinna hernaðarlegra skotmarka. Borgaraleg farartæki eru ekki smíðuð til að þola það sama,“ segir sjóherstjórinn og eykur því við að langflest farartæki hersins fari sína leið í endurvinnslu. Sum þeirra nýtist þó sem skotmörk.
„Einstaka sinnum verðum við að prófa heildaráhrifin. Þar eru á ferð skýr skilaboð til óvina okkar og hugsanlegra óvildarmanna Noregs,“ segir Kyrre Haugen að lokum.