Segir Rússa ekki hika við hernaðarátök

Martin Jäger, yfirmaður þýsku leyniþjónustunnar BND.
Martin Jäger, yfirmaður þýsku leyniþjónustunnar BND. AFP

Yfirmaður þýsku leyniþjónustunnar segir að það stafi bein ógn af Rússum og að núverandi „ískaldur friður“ við Evrópusambandið geti hvenær sem er brotist út í átök.

Martin Jäger, yfirmaður þýsku leyniþjónustunnar BND, sagði við þingmenn að Rússar væru staðráðnir í að auka áhrifasvæði sitt enn frekar vestur til Evrópu.

„Til að ná þessu markmiði munu Rússar ekki víla fyrir sér bein hernaðarátök við NATO ef nauðsyn krefur,“ sagði Jäger, sem tók við stjórn stofnunarinnar í síðasta mánuði, á opnum fundi með þingmönnum í Berlín.

Með Jäger í för voru yfirmenn þýsku innanríkis- og hernaðarlegu leyniþjónustunnar.

Þrátt fyrir að þeir hafi nefnt aðrar ógnir sem steðja að Þýskalandi, svo sem pólitískar og trúarlegar öfgar, voru það Rússar sem voru mest áberandi í ræðum þeirra.

Mega ekki sitja aðgerðalaus

Jäger, sem starfaði áður sem sendiherra Þýskalands í Kænugarði í Úkraínu, tók undir með öðrum yfirmönnum leyniþjónustunnar og sagði að metnaður og árásarhneigð Rússa takmarkaðist ekki við stríðið í Úkraínu.

„Við megum ekki sitja aðgerðalaus og gera ráð fyrir að hugsanleg rússnesk árás komi í fyrsta lagi árið 2029,“ sagði Jäger og vísaði til fyrra leyniþjónustumats.

„Nú þegar er verið að sækja að okkur.“

Jäger sagði að rússnesk stjórnvöld virtust staðráðin í að grafa undan NATO og koma á óstöðugleika í evrópskum lýðræðisríkjum.

„Aðferðirnar sem Moskva notar eru vel þekktar: Tilraunir til að hafa áhrif á kosningar og almenningsálit, áróður, ögranir, falskar upplýsingar, njósnir, skemmdarverk, lofthelgisbrot með drónum og orrustuþotum, leigumorð og ofsóknir á hendur stjórnarandstæðingum sem búa erlendis,“ sagði Jäger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert