Trump: Sögulegt upphaf nýrra Mið-Austurlanda

Trump á ísraelska þinginu í dag.
Trump á ísraelska þinginu í dag. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að vopnahléið sem hann átti þátt í að semja í Gasastríðinu hafi markað sögulegt upphaf nýrra Mið-Austurlanda.

„Við söfnumst saman á degi djúprar gleði og uppörvandi vonar, endurnýjaðrar trúar og umfram allt á degi þar sem við færum almáttugum Guði Abrahams, Ísaks og Jakobs okkar dýpstu þakkir,“ sagði Trump er hann ávarpaði ísraelska þingið nú fyrir skömmu.

Trump sagði að eftir svo mörg ár af linnulausu stríði og endalausri hættu séu himnarnir nú rólegir, byssurnar hljóðar og sírenur séu þagnaðar.

Upphaf trúar, vonar og Guðs

„Þetta er ekki aðeins endir stríðs, heldur endir á tímabili ógnar og dauða og upphaf trúar, vonar og Guðs. Þetta er byrjun á miklu samkomulagi og varanlegri sátt fyrir Ísrael og allar þjóðir þessa svæðis sem mun brátt verða sannarlega stórbrotið,“ sagði Bandaríkjaforseti.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hrósaði Trump fyrir þátt hans í vopnahlésamkomulaginu.

„Hversu lengi við höfum beðið eftir þessari stund og ég vil þakka þér persónulega fyrir hönd allrar þjóðarinnar. Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur, herra forseti,“ sagði Netanjahú. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka