Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) varaði við því í dag að ört vaxandi fjöldi lyfjaónæmra bakteríusýkinga grafi undan virkni lífsnauðsynlegra meðferða og geta þar af leiðandi gert minni háttar áverka og algengar sýkingar banvænar.
Stofnunin segir að í einni af hverjum sex bakteríusýkingum á heimsvísu árið 2023, sem hafi verið staðfestar á rannsóknarstofum, hafi bakteríurnar reynst ónæmar gagnvart sýklalyfjameðferðum.
„Þessar niðurstöður valda áhyggjum,“ sagði Yvan J-F. Hutin, yfirmaður deildar WHO um sýklalyfjaónæmi.
„Eftir því sem sýklalyfjaónæmi heldur áfram að aukast þá erum við að verða uppiskroppa með meðferðarúrræði og stofnum mannslífum í hættu.“
Bakteríur hafa lengi þróað með sér ónæmi gegn lyfjum sem eru hönnuð til að berjast gegn þeim, sem gerir mörg lyf gagnslaus.
Þetta ferli hefur gerst hraðar vegna gríðarlegrar notkunar sýklalyfja til að meðhöndla menn, dýr og í matvælaframleiðslu.
Sýklalyfjaónæmar (AMR) ofurbakteríur valda yfir milljón dauðsföllum með beinum hætti og eiga þátt í nærri fimm milljónum dauðsfalla ár hvert að sögn WHO.
Í skýrslu um vöktun á sýklalyfjaónæmi skoðaði WHO áætlaða tíðni ónæmis gagnvart 22 sýklalyfjum sem notuð eru til að meðhöndla sýkingar í þvag- og meltingarvegi, blóðrás og þeim sem notuð eru til að meðhöndla lekanda.
Á fimm ára tímabili fram til ársins 2023 jókst sýklalyfjaónæmi í yfir 40 prósentum af vöktuðum sýklalyfjum, með meðaltalsárshækkun á bilinu fimm til 15 prósent, samkvæmt skýrslunni.
Fyrir þvagfærasýkingar var ónæmi gegn algengum sýklalyfjum yfirleitt hærra en 30 prósent á heimsvísu.
Í skýrslunni voru átta algengir sýklar skoðaðir, þar á meðal E. coli og K. pneumoniae, sem geta leitt til alvarlegra blóðsýkinga sem oft valda blóðsýkingu, líffærabilun og dauða.
WHO varaði við því að meira en 40 prósent E.coli-sýkinga og 55 prósent K.pneumoniae-sýkinga á heimsvísu séu nú ónæmar fyrir þriðju kynslóðar cefalósporínum, sem er fyrsti valkosturinn í meðferð þessara sýkinga.
„Sýklalyfjaónæmi er að fara fram úr framförum í nútíma læknisfræði og ógnar heilsu fjölskyldna um allan heim,“ segir Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO, í yfirlýsingu.
WHO fagnaði umbótum í vöktun en varaði við því að 48 prósent landa væru enn ekki að tilkynna nein gögn um sýklalyfjaónæmi.
„Við erum klárlega í blindflugi í fjölda landa og svæða sem hafa ófullnægjandi vöktunarkerfi fyrir sýklalyfjaónæmi,“ viðurkenndi Hutin.
Miðað við fyrirliggjandi gögn fannst mesta ónæmið á stöðum með veikari heilbrigðiskerfi og minni vöktun að sögn WHO.
Mesta ónæmið fannst á Suðaustur-Asíu- og Austur-Miðjarðarhafssvæðunum, þar sem ein af hverjum þremur tilkynntum sýkingum var ónæm.
Á Afríkusvæðinu var hins vegar ein af hverjum fimm sýkingum ónæm.
Silvia Bertagnolio, sem stýrir deild WHO fyrir vöktun sýklalyfjaónæmis, sagði fréttamönnum að það kæmi ekki á óvart að ónæmi væri meira á stöðum með veikari heilbrigðiskerfi, þar sem þau gæti skort getu til að greina eða meðhöndla sýkla á áhrifaríkan hátt.
Munurinn gæti einnig tengst því að lönd með minni vöktun gætu prófað og veitt gögn um færri sjúklinga og aðeins þá með alvarlegustu sýkingarnar sagði hún.
WHO hefur varað við því að ekki séu nægilega mörg ný próf og meðferðir í þróun til að takast á við vaxandi útbreiðslu lyfjaónæmra baktería.
Þetta skapar verulega „framtíðarógn“, varaði Hutin við.
„Aukin sýklalyfjanotkun, aukið ónæmi og fækkun nýrra lyfja í þróun er mjög hættuleg blanda.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
