Nóbelsverðlaunin í hagfræði voru í dag veitt til bandarísk-ísraelska hagfræðingsins Joel Mokyr, Frakkans Philippe Aghion og Kanadamannsins Peter Howitt fyrir rannsóknir þeirra á áhrifum tækni á viðvarandi hagvöxt.
Mokyr, sem er 79 ára, hlaut helming verðlaunanna „fyrir að hafa skilgreint forsendur viðvarandi vaxtar með tækniframförum“ að sögn Konunglegu sænsku vísindaakademíunnar.
Aghion, sem er 69 ára, og Howitt, sem er 79 ára, deildu hinum helmingnum „fyrir kenninguna um viðvarandi vöxt með skapandi eyðileggingu“ bætti akademían við.
John Hassler, formaður verðlaunanefndarinnar, sagði við fréttamenn að rannsóknir þeirra svöruðu spurningum um hvernig tækninýjungar knýja áfram vöxt og hvernig hægt sé að viðhalda viðvarandi vexti.
Mokyr, sem er prófessor við Northwestern-háskóla í Bandaríkjunum, „notaði sögulegar heimildir meðal annars til að afhjúpa orsakir þess að viðvarandi vöxtur varð hið nýja norm“ sagði dómnefndin í yfirlýsingu.
Aghion og Howitt skoðuðu síðan hugtakið „skapandi eyðilegging“, sem vísar til þess ferlis „þegar ný og betri vara kemur á markað og fyrirtækin sem selja eldri vörurnar tapa“.
Hagfræðiverðlaunin eru einu Nóbelsverðlaunin sem ekki voru meðal þeirra fimm upprunalegu sem stofnað var til í erfðaskrá sænska vísindamannsins Alfreds Nobels, sem lést árið 1896.
Þau voru þess í stað stofnuð með framlagi frá sænska seðlabankanum árið 1968, sem hefur leitt til þess að gagnrýnendur kalla þau „fölsuð Nóbelsverðlaun“.
En líkt og með Nóbelsverðlaunin í efnafræði og eðlisfræði velur Konunglega sænska vísindaakademían verðlaunahafann og fylgir sama valferli.