Í fyrsta sinn hefur Airbus A320 farið fram úr Boeing 737, einni vinsælustu farþegaþotu heims, þegar kemur að heildarfjölda afhentra véla. Þetta kemur fram í tölum sem birtar voru í dag.
Samkvæmt upplýsingum frá Boeing afhenti bandaríska flugvélafyrirtækið fjörutíu 737 MAX-vélar í septembermánuði og hefur þar með afhent alls 12.254 þotur af 737-gerðinni frá því að hún var kynnt árið 1968.
Á sama tíma hafði Airbus afhent 12.257 eintök af flaggskipi sínu, A320, sem tekið var fyrst í notkun árið 1988. Þotan er þar með orðin mest selda flugvél heims frá upphafi.
Framúrakstur Airbus endurspeglar þau vandamál sem Boeing hefur glímt við á undanförnum árum í tengslum við öryggi og gæðaeftirlit.
737 MAX var kyrrsett í tuttugu mánuði eftir tvö mannskæð flugslys árin 2018 og 2019, þar sem alls létust 346 manns.
Nýlega settu bandarísk flugöryggisyfirvöld þak á framleiðslu MAX-véla við 38 eintök á mánuði, í kjölfar atviks í janúar síðastliðnum þegar Alaska Airlines-vél þurfti að nauðlenda eftir að gluggi í skrokknum losnaði í miðju flugi.
Boeing hefur gripið til umfangsmikilla umbóta, meðal annars með viðbótaröryggisþjálfun og auknu eftirliti flugmálayfirvalda.
Stjórnendur fyrirtækisins gera ráð fyrir að framleiðslan aukist í 42 vélar á mánuði fyrir lok árs 2025.
