Árás á bílalest með hjálpargögn

Brunarústir bíls á götu í bænum Kostjantínívka í Donetsk-héraði sem …
Brunarústir bíls á götu í bænum Kostjantínívka í Donetsk-héraði sem liggur við víglínuna. Bíllinn var þó ekki hluti af bílalest Sameinuðu þjóðanna. AFP/ Oleg Petrasiuk

Rússneskar hersveitir gerðu árás á bílalest með hjálpargögn frá Sameinuðu þjóðunum í Kherson-héraði í suðurhluta Úkraínu, sem er að hluta til hernumið, að sögn stjórnvalda í Kænugarði í dag.

Enginn særðist í árásinni en töluvert tjón varð á ökutækjum lestarinnar.

Oleksandr Prokudin, yfirmaður herstjórnar héraðsins, sagði að dróna- og stórskotaárás hefði átt sér stað nærri bænum Bilozerka sem liggur við víglínuna.

„Hernámsliðið beindi drónum og stórskotaliði af ásettu ráði að flutningabílum frá OCHA, samhæfingarstofnun mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna,“ skrifaði Prokudin á samfélagsmiðla.

Að hans sögn voru fjögur ökutæki í bílalestinni. Eitt þeirra brann til kaldra kola og annað skemmdist mikið en hin tvö sluppu ósködduð.

Andriy Sybiga, utanríkisráðherra Úkraínu, fordæmdi árásina harðlega og kallaði hana „annað gróft brot á alþjóðalögum sem sýnir algjört virðingarleysi Rússa fyrir lífi almennra borgara og alþjóðlegum skuldbindingum sínum“.

Hafa ekki gefið út yfirlýsingu

Hvorki Sameinuðu þjóðirnar né stjórnvöld í Moskvu hafa gefið út yfirlýsingu vegna árásarinnar.

Prokudin birti mynd sem sýndi hvítan flutningabíl merktan Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) í ljósum logum, með svartan reykjarmökk sem steig upp frá honum.

Úkraínsk stjórnvöld og hjálparsamtök hafa ítrekað greint frá því á meðan tæplega fjögurra ára innrás Rússa hefur staðið yfir að starfsfólk þeirra og aðstaða hafi orðið fyrir loftárásum og sprengjuárásum hersveita Rússa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert