Einn af hverjum tíu Ítölum bjó við fátækt árið 2024, samkvæmt nýrri rannsókn ítölsku hagstofunnar (Istat) sem birt var í dag.
Þar kemur fram að stórar fjölskyldur og heimili innflytjenda hafi orðið hvað verst úti.
Samkvæmt rannsókninni lifa nú um 5,7 milljónir Ítala, eða 9,8% þjóðarinnar, við svokallaða algjöra fátækt. Það jafngildir 2,2 milljónum heimila. Hlutfallið hefur haldist stöðugt undanfarin tvö ár en er mun hærra en fyrir áratug síðan.
„Algjör fátækt“ er skilgreind sem vanhæfni til að standa straum af grunnþörfum, svo sem mat, húsnæði og nauðsynlegri þjónustu. Til samanburðar voru viðmiðunarmörk í Róm árið 2023 fyrir ungt par með eitt barn 1.568 evrur á mánuði, sem jafngildir um 220.000 íslenskra króna.
Þegar litið er til víðtækari mælikvarða á fátækt og félagslega einangrun reyndust 13,6 milljónir Ítala, eða 23% þjóðarinnar, búa við slíka áhættu.
Það er yfir meðaltali Evrópusambandsins, sem var 21% árið 2024, samkvæmt tölum Eurostat. Ítalía stendur þar verr en flest Vestur-Evrópuríki en þó betur en Grikkland, þar sem hlutfallið var tæplega 27%.
Erlendir ríkisborgarar á Ítalíu eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
Rannsóknin sýnir að 35% heimila sem eingöngu samanstanda af erlendum ríkisborgurum búa undir fátæktarmörkum, á móti aðeins 6% heimila sem samanstanda einvörðungu af Ítölum.
