Ný bylgja andúðar í garð streymisveitunnar Spotify virðist í uppsiglingu og óháðir tónlistarmenn hvetja fólk til að sniðganga fyrirtækið. Á dögunum kom fólk úr óháða tónlistargeiranum saman í Oakland í Kaliforníu á fundum sem báru yfirskriftina Death to Spotify.
Þar var boðið upp á fyrirlestra frá óháðu útvarpsstöðinni KEXP, útgáfunum Cherub Dream Records og Dandy Boy Records og fleirum. Fljótt seldist upp á þessa fyrirlestraröð og fiskisagan var ekki lengi að fara á flug; skipuleggjendur hafa vart undan að svara tölvupóstum frá fólki víða um heim sem vill halda svipaða viðburði.
Enn er eftir að koma í ljós hvort þessi bylgja gerir meira en að gára vatnið. Þó er ljóst að þetta er í þriðja sinn á þessu ári sem fólk sér sig til knúið til að stíga fram og gagnrýna streymisveituna sænsku.
Spotify er stærsta tónlistarveita í heimi með nærri 700 milljónir notenda. Þar af eru 276 miljónir sem greiða fyrir áskrift að veitunni.
Fjallað var um það í Morgunblaðinu í mars á þessu ári að mikil óánægja væri innan tónlistarheimsins með svokallaða gervilistamenn sem vaða uppi á Spotify. Fyrirtækið hefur í auknum mæli síðustu ár látið framleiða tónlist fyrir ýmsa vinsæla lagalista. Með því hefur þekktum listamönnum verið smám saman úthýst á þeim lagalistum og nýliðar koma að luktum dyrum. Á sama tíma hirðir Spotify sjálft æ stærri hluta kökunnar af höfundarréttargreiðslum fyrir tónlistarstreymið og reynir að blekkja viðskiptavini sína með því að láta sem umræddir gervilistamenn séu til í raun og veru. Vart þarf að fjölyrða um að tilkoma gervigreindar auðveldar til muna framleiðslu slíkrar tónlistar og því ólíklegt að auðveldlega gangi að úthýsa henni á Spotify í náinni framtíð.
Umræðan um gervilistamenn spratt upp eftir að bók bandarísku blaðakonunnar Liz Pelly, Mood Machine: The Rise of Spotify and the Costs of the Perfect Playlist, kom út en hún var afrakstur tíu ára vinnu hennar við rannsóknir á starfsemi Spotify. Niðurstaða Pelly var að Spotify hefði eyðilagt tónlistariðnaðinn og breytt hlustendum í óvirka neytendur sem sætti sig við daufa bakgrunnstónlist.
Í sumar urðu gagnrýnisraddir vegna lágra höfundarréttargreiðslna persónulegar og beindust að Daniel Ek, stofnanda Spotify, vegna fjárfestingar hans í Helsing, þýsku fyrirtæki sem þróar gervigreind fyrir hernaðartækni. Hljómsveitir á borð við Massive Attack, King Gizzard & the Lizard Wizard, Deerhoof og Hotline TNT fjarlægðu tónlist sína af veitunni í mótmælaskyni.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem stór nöfn í tónlistarheiminum hafa fjarlægt tónlist sína af Spotify. Flest hafa þau þó á endanum laumað tónlist sinni aftur þar inn án þess að auglýsa það mikið. Frægt varð þegar Taylor Swift sniðgekk Spotify í þrjú ár til að mótmæla ósanngjörnum greiðslum en sneri aftur árið 2017. Forsprakki Radiohead, Thom Yorke, fjarlægði nokkur af sólóverkefnum sínum af sömu ástæðu árið 2013 og vandaði Spotify ekki kveðjurnar. Tónlist hans skilaði sér á endanum aftur inn.
Sama gildir um Neil Young og Joni Mitchell sem yfirgáfu appið árið 2022 og vísuðu til samstarfs fyrirtækisins við Joe Rogan, hlaðvarpsstjórnanda sem hafði talað gegn bólusetningum. Báðir kanadísku tónlistarmennirnir fengu mænusótt sem börn á sjötta áratugnum. Þau settu einnig tónlist sína aftur á Spotify.
Eric Drott, prófessor í tónlist við Texas-háskóla í Austin, segir í samtali við breska blaðið The Guardian að þessi nýja bylgja sniðgöngu sé öðruvísi. „Þessir listamenn eru ekki jafn frægir. Í mörg ár vissu listamenn að streymi myndi ekki gera þá ríka en þeir þurftu á sýnileikanum að halda. Nú er svo mikið af tónlist í boði að fólk er farið að efast um að það hafi mikið upp úr því.“
Gagnrýnt hefur verið að forsvarsmenn þessarar nýju bylgju bjóði ekki upp á neinar lausnir. Þeir beini tónlistaráhugafólki ekki í „rétta“ átt. Skipuleggjendur Death to Spotify segja að markmið þeirra sé ekki endilega að tortíma Spotify. „Við viljum bara að allir hugsi aðeins betur um hvernig þeir hlusta á tónlist,“ segir Manasa Karthikeyan, einn skipuleggjenda, við The Guardian. Hún bætir við að menningin verði flatari og meira óspennandi ef fólk heldur sig innan þægindaramma sem búinn er til með algrími sænska stórfyrirtækisins.
Markmið Death to Spotify er í stuttu máli að hennar sögn: „Burt með hlustun eftir algrími, burt með þjófnað á stefgjöldum, burt með tónlist sem búin er til með gervigreind.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
