Öryggissveitir Hamas-samtakanna voru á þriðjudag að herða tök sín innan um rústir Gasasvæðisins, þrátt fyrir vaxandi alþjóðlegan stuðning við bandarísku friðaráætlunina sem kveður á um afvopnun samtakanna.
Þegar rútur með föngum, sem Ísrael hafði sleppt, komu til Gasasvæðisins á mánudaginn sáu bardagamenn úr Ezzedine al-Qassam vígasveitum Hamas um fjöldastjórnun. Á norðurhluta svæðisins, eftir að ísraelskar hersveitir hörfuðu frá Gasa-borg, hófu grímuklæddir lögreglumenn Hamas aftur eftirlit með götum borgarinnar.
Á sama tíma hefur sérstök öryggissveit Hamas hafið aðgerðir gegn vopnuðum klönum og glæpahópum, og eru sumir þeirra sagðir hafa tengsl við Ísrael.
„Það brutust út hörð átök — sem standa enn yfir — í tilraunum til að uppræta samverkamenn,“ sagði vitnið Yahya, sem óskaði nafnleyndar af ótta við hefndir.
Annað vitni, Mohammed, sagði við AFP: „Í marga klukkutíma í morgun voru hörð átök milli öryggissveita Hamas og meðlima Hilles-fjölskyldunnar.“
Bardagarnir fóru fram í Shujaiya, í austurhluta Gaza-borgar, nálægt hinni svokölluðu „Gulu línu“, en þar halda ísraelskar sveitir enn um það bil helmingi Gasa.
„Við heyrðum mikla skothríð og sprengingar, og öryggissveitirnar handtóku nokkra þeirra. Við styðjum þetta,“ sagði Mohammed, sem einnig óskaði nafnleyndar.
Heimildarmaður AFP í öryggissveitunum sagði að hin nýstofnaða „fælingarsveit“ væri nú að sinna aðgerðum á vettvangi til „að tryggja öryggi og stöðugleika“.
„Skilaboð okkar eru skýr: Hér verður enginn staður fyrir glæpamenn eða þá sem ógna öryggi borgaranna,“ sagði hann.
Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnti í síðasta mánuði friðaráætlun sem kveður á um að meðlimir Hamas, sem samþykkja að „leggja niður vopn“, fái sakaruppgjöf.
Áætlunin, sem er í 20 liðum var samþykkt af helstu stórveldum heimsins á ráðstefnu í Egyptalandi á mánudag. Gerir hún ráð fyrir því að Gaza verði afvopnað og að Hamas fái ekkert hlutverk við stjórn Gasasvæðisins.
Margir Palestínumenn, sem eru að reyna að byggja upp líf sitt að nýju eftir stríðið, sögðu þó að nærvera Hamas-hersveita á götum væri þeim til öryggis.
„Eftir að stríðinu lauk og lögreglan dreifðist út um göturnar fór maður að finna fyrir öryggi,“ sagði 34 ára Abu Fadi Al-Banna í Deir al-Balah í mið-Gaza.
„Þeir byrjuðu að stjórna umferðinni og hreinsa markaðina, fjarlægja götusala sem stóðu í veginum. Við fundum að við vorum varin fyrir þjófum og ræningjum.“
Hamdiya Shammiya, 40 ára kona sem flúði norðurhluta Gasa og fann skjól í Khan Yunis í suðri, sagði:
„Guði sé lof að stríðinu er lokið. Við getum loks andað aftur. Nú þurfum við þolinmæði, skipulag og það öryggi sem lögreglan er farin að koma á. Við finnum nú þegar fyrir framförum.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
