Hellusteini grýtt í höfuð lögreglumanns

Hjálmur lögreglumanns úr því fjölmenna lögregluliði, sem hélt aftur af …
Hjálmur lögreglumanns úr því fjölmenna lögregluliði, sem hélt aftur af um eitt þúsund mótmælendum við Ullevaal-leikvanginn á laugardaginn, hefur munað sinn fífil fegurri eftir að hellusteini var varpað að lögreglumanninum. Ljósmynd/Norska lögreglan

Ekki er gott að segja hver örlög norsks lögreglumanns hefðu orðið við mótmælin við Ullevaal-leikvanginn á laugardaginn hefði hjálmur óeirðabúningsins ekki varið höfuðið því hjálmurinn er verulega laskaður eftir grjóthnullung sem varpað var að manninum.

Mótmælendur hliðhollir Palestínu fylktu liði, um eitt þúsund manns, og skunduðu að leikvanginum þar sem fram fór knattspyrnuleikur milli Noregs og Ísraels í undankeppni heimsmeistarakeppninnar á næsta ári og kom til töluverðra átaka við óeirðalögreglumenn sem bjuggust við nokkurri orrahríð enda hafði lögreglan uppi mesta viðbúnað sem verið hefur fyrir nokkurn íþróttakappleik í landinu fram til þessa.

Eins og mbl.is greindi frá á laugardaginn beitti lögregla táragasi þegar engu tauti varð við mótmælendur komið og þynntist flokkur þeirra þá verulega við leikvanginn þar sem 22 höfðu þegar sætt handtökum fyrir óspektir á almannafæri og óhlýðni við lögreglu.

Mætti í Åsted Norge

„Þeir tóku að kasta hlutum að okkur, þar á meðal steinum sem hæfðu lögreglumenn,“ lýsti Anders Rønning, stjórnandi lögregluaðgerða á vettvangi, þegar hann ræddi við norska ríkisútvarpið NRK á laugardagskvöldið.

Rønning var einnig gestur hins kunna afbrotaumræðuþáttar Åsted Norge á TV2 nú eftir helgina og greindi þar frá því að í því tilfelli sem hér segir frá hafi verið um hellustein úr götulögn að ræða og hafi hann komið fljúgandi frá litlum hópi mótmælenda sem hafði komið sér fyrir þétt upp við öryggisgirðingu lögreglu sem mótmælendur brutu síðar niður.

Enginn úr hópi mótmælenda hefur tekið opinbera afstöðu til atburðanna á laugardaginn að frátalinni Line Khateeb formanni Palestinakomiteen en þau samtök stóðu að mótmælunum. Kveður hún mótmælin hafa átt að vera friðsamleg en hópur um 20 til 50 manns sem kom á svæðið, og var að hennar sögn ekki hluti upprunlegra mótmælenda, hafi hleypt öllu í bál og brand.

„Þá ertu kominn yfir strikið“

Tókst lögreglu með beitingu táragass að hrekja mótmælendur yfir á John Collets-torgið, tæpan kílómetra frá leikvanginum, þar sem hinir handteknu voru hafðir í haldi til bráðabirgða uns unnt var að flytja þá í fangageymslur síðar um kvöldið.

Rønning sagði einnig frá því að átökin hefðu hafist þegar manneskja sem bar ísraelska fánann hefði birst á svæðinu og vakið mikinn úlfaþyt í hópi mótmælenda. „Við tókum viðkomandi þá inn fyrir girðinguna hjá okkur og þá fóru mótmælendur að færa sig nær,“ segir aðgerðastjórinn frá.

„Þegar þú ákveður að færa þig alveg upp að lögreglunni og byrja að rífa niður girðingarnar okkar, þá ertu kominn yfir strikið,“ segir Rønning og bætir því við að þá taki lögregla á móti og fari að koma þeim brotlegu af vettvangi. Lögregla hafi reynt að ræða við mótmælendur á rólegu nótunum en þeir skellt skollaeyrunum við.

Aftenposten greinir frá því að margir hinna handteknu hafi nú fengið sektargerð upp á 18.000 krónur, jafnvirði rúmlega 218.000 íslenskra króna. Á sunnudagskvöld greindi lögregla frá því að nokkrar þeirra hefðu þó verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna gruns um brot á útlendingalögum og mættu þeir reikna með brottvísun úr landi.

NRK

TV2 (þátturinn Åsted Norge eftir helgina)

VG

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert