Nokkrir bandarískir og alþjóðlegir fjölmiðlar hafa neitað að undirrita nýjar fjölmiðlareglur varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna. Þeir verða því sviptir blaðamannapössum sínum og fá ekki lengur aðgang að vinnuaðstöðu innan ráðuneytisins.
Um er að ræða miðla á borð við New York Times, AP, Fox News, AFP, ABC og CNN. Miðlarnir telja að nýju reglurnar gætu grafið undan fjölmiðlafrelsi.
Pete Hegseth varnarmálaráðherra Bandaríkjanna sendi blaðamönnum skjal um fyrirhugaðar breytingar í síðasta mánuði.
Þar sagði að allar upplýsingar sem kæmu frá ráðuneytinu yrðu að vera samþykktar af viðeigandi aðila áður en þær yrðu birtar.
Þá var einnig kveðið á um að hermenn þyrftu sérstakt samþykki áður en þeir myndu deila upplýsingum með fjölmiðlum, þó að þær væru ekki leynilegar.
„[Við] getum ekki samþykkt skilmálana frá Pentagon sem krefst þess að fjölmiðlar viðurkenni óljósar nýjar reglur sem virðast ganga í berhögg við stjórnarskrárvarin lög Bandaríkjanna og grundvallarreglur blaðamennsku,“ sagði í yfirlýsingu frá AFP.
„Við munum halda áfram að fjalla um Pentagon og bandaríska herinn á frjálsan og sanngjarnan hátt eins og við höfum gert í áratugi,“ sagði jafnframt í yfirlýsingunni.
