Sex létu lífið í árás Bandaríkjahers

Árásin var gerð á alþjóðlegu hafsvæði.
Árásin var gerð á alþjóðlegu hafsvæði. AFP/Jim Watson

Bandaríkjaher gerði árás á venesúelskan bát í dag með þeim afleiðingum að sex létu lífið. Bandaríkjaforseti sakar bátverjana um að flytja inn fíkniefni til Bandaríkjanna.

Frá þessu greinir Donald Trump Bandaríkjaforseti í færslu á samfélagsmiðlum.

Trump lýsti því nýlega yfir að Bandaríkin ættu í „vopnuðum átökum“ við eiturlyfjasmyglara frá Venesúela. Þetta er fimmta mannskæða árás Bandaríkjahers gegn meintum eiturlyfjasmyglurum.

Á annan tug hafa látið lífið.

Gerð á alþjóðlegu hafsvæði

Trump sagði í færslu á samfélagsmiðlum að Pete Hegseth varnarmálaráðherra hefði fyrirskipað árásina í morgun. Hann segir árásina hafa verið gerða á alþjóðlegu hafsvæði.

Sömuleiðis segir forsetinn að upplýsingar frá leyniþjónustunni hafi staðfest að fíkniefni væru um borð í bátnum.

Hegsteth birti myndskeið af árásinni í færslu á X.

Deilt um lögmæti aðgerðanna

Deilt er um hvort aðgerðir Bandaríkjahers séu löglegar. Repúblikanar á bandaríska þinginu hafa óskað eftir upplýsingum frá Hvíta húsinu um lagalegan grundvöll og smáatriði árásanna. Demókratar hafa jafnframt haldið því fram að árásirnar brjóti í bága við bandarísk og alþjóðleg lög.

AP-fréttastofan hefur eftir heimildamönnum sínum að ríkisstjórn Trumps hafi ekki enn lagt fram gögn sem sýni fram á að bátarnir, sem herinn hefur gert árásir á, hafi verið að flytja inn fíkniefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert