Tugir Suður-Kóreumanna eru sagðir týndir eða haldið föngnum gegn vilja sínum í Kambódíu, og grunur leikur á að þeir hafi orðið fórnarlömb falskra atvinnutilboða eða svonefndra svikamiðstöðva í landinu.
Þetta kemur fram í máli embættismanns suðurkóreska utanríkisráðuneytisins í samtali við fréttaveituna AFP.
Samkvæmt ráðuneytinu hafa frá janúar til ágúst á þessu ári 330 Suður-Kóreumenn verið tilkynntir annaðhvort horfnir eða haldið föngnum eftir komu sína til Kambódíu. Enn hefur ekki tekist að hafa uppi á um 80 þeirra.
Ráðuneytið segir jafnframt að unnið sé að því að samræma tölurnar við gögn lögreglu til að tryggja að ekki sé um tvítalningu að ræða.
Að sögn suðurkóreskra stjórnvalda hafa margir borgaranna verið blekktir til Kambódíu með loforðum um hálaunuð störf. Þegar þangað sé komið séu þeir hins vegar neyddir til að taka þátt í netsvikum, svo sem fjárfestinga- og ástarsvindli.
Þeir sem neita eða standa sig illa séu barðir og pyntaðir.
Samkvæmt Amnesty International eiga pyndingar og misþyrmingar í svikamiðstöðvum Kambódíu sér stað í miklum mæli. Þá séu að minnsta kosti 53 slíkar miðstöðvar í landinu þar sem skipulagðir glæpahópar stunda mansal, nauðungarvinnu, pyntingar, frelsissviptingu og þrælahald.
Forseti Suður-Kóreu, Lee Jae Myung, sagði að mannránin í Kambódíu hefðu valdið Suður-Kóreubúum verulegum skaða og ótta, þar sem margir hafi áhyggjur af ástvinum.
„Ríkisstjórnin ætti tafarlaust að grípa til allra tiltækra ráðstafana til að tryggja öryggi borgara okkar,“ sagði forsetinn fyrr í dag.
Skrifstofa forsetans greindi jafnframt frá því að viðbragðsteymi yrði sent til Kambódíu á morgun, og að íhugað sé að hækka viðvörunarstig vegna ferðalaga til landsins.
Nýlegt andlát suðurkóresks háskólanema í Kambódíu hefur vakið mikinn ugg í heimalandinu, en neminn hafði verið pyntaður af staðbundnum glæpahring.
Lík hans fannst í pallbíl í byrjun ágúst, en hann hafði komið til Kambódíu mánuði fyrr.
Þrír menn, allir kínverskir ríkisborgarar, hafa verið ákærðir fyrir morð og netsvik í tengslum við málið, og eru í gæsluvarðhaldi. Lögreglan leitar nú tveggja annarra grunaðra.