Dómari stöðvar fjöldauppsagnir Trumps

Donald Trump.
Donald Trump. AFP/Andrew Caballero-Reynolds

Dómari í Bandaríkjunum hefur tímabundið komið í veg fyrir að ríkisstjórn Donald Trump forseta segi upp þúsundum alríkisstarfsmanna á meðan ríkisstofnanir eru lokaðar.

Vika er síðan stjórnvöld í Bandaríkjunum greindu frá uppsögnum rúmlega fjögur þúsund starfsmanna.

Susan Illston, héraðsdómari í Bandaríkjunum, varð við beiðni tveggja stéttarfélaga um að stöðva uppsagnir hjá meira en 30 stofnunum.

Við yfirheyrsluna sagðist Illston vera sammála stéttarfélögunum um að stjórnvöld væru með ólögmætum hætti að nýta sér skort á fjármagni til að framfylgja áætlunum sínum um að fækka starfsfólki alríkisstjórnarinnar.

Vísaði í yfirlýsingar Trumps 

Hún vísaði einnig í fjölda opinberra yfirlýsinga frá Donald Trump forseta og Russell Vought, yfirmanni fjárlagaskrifstofu Hvíta hússins, sem hún sagði sýna skýrar pólitískar ástæður fyrir uppsögnunum, svo sem þegar Trump sagði að niðurskurðurinn myndi beinast að „stofnunum demókrata“.

Lögmaður dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna sagði að stéttarfélögin yrðu að leggja kröfur sínar fyrir alríkisvinnumálanefnd áður en þau færu fyrir dómstóla.

Lokun stofnana stendur nú yfir þriðju vikuna í röð og ekkert þokast á þingi í deilum um útgjöld ríkisins. Trump hefur staðið við hótanir sínar um að grípa til harkalegra aðgerða gegn starfsmönnum ríkisins í kjölfarið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka