„Frekar leitin að næsta vélvirkja“

Hér sést HMS Skaftö fylgja rússneska kafbátnum á Eystrasalti auk …
Hér sést HMS Skaftö fylgja rússneska kafbátnum á Eystrasalti auk þess sem sænsk JAS Gripen-orrustuþota vomir yfir en þá gripi smíðuðu Saab-verksmiðjurnar á sínum tíma og gera raunar enn. Ljósmynd/Sænski sjóherinn

Sænski sjó- og flugherinn fylgir nú rússneskum kafbáti á Eystrasalti eftir sem kom þangað um Stórabelti, sundið milli dönsku eyjanna Sjálands og Fjóns, í gær og virðist glíma við vélarbilun.

Um er að ræða olíuknúinn kafbát úr framleiðslulínunni „Kilo“ og fylgir sænska herskipið HMS Skaftö honum eftir auk þess sem JAS Gripen-orrustuþotur flughersins sveima yfir rússneska herfleyinu.

„Þetta er vanabundið eftirlit en það er ekki alltaf sýnilegt [eins og nú] en úr því fólk er í viðbragðsstöðu viljum við hafa þetta opinbert og sýna að herinn sinnir eftirliti,“ segir Jonas Beltrame-Linné.

Mikil breyting frá sögu Clancy

Eftir því sem sænska ríkisútvarpið SVT greinir frá er hér kominn sami kafbátur og nýlega sást til á Ermarsundi og Mark Rutte, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins NATO, lét þau orð falla um að „haltraði“ um hafið.

„Hvílík breyting frá [skáldsögunni] „Leitin að Rauða október“ eftir Tom Clancy. Í dag virðist þetta frekar vera leitin að næsta vélvirkja,“ sagði Rutte þar sem hann sló á létta strengi á ársfundi NATO-þingsins í Ljubljana í Slóveníu í fyrradag.

Að sögn Svíanna er kafbáturinn rússneski á leið frá Miðjarðarhafinu til einnar af höfnum Rússlands við Eystrasaltið og segir annar upplýsingafulltrúi sjóhersins, Jimmie Adamsson, við SVT að alvanalegt sé að herir flytji skip sín milli aðgerðasvæða og rússneski kafbáturinn sem hér um ræðir hafi þegar verið í fylgd franskra, breskra, hollenskra og belgískra herskipa auk þess sænska.

SVT

Aftonbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert