Stjórnmálaskýrendur í Bandaríkjunum telja líklegt að Hæstiréttur landsins hætti að líta til kynþáttar þegar kjördæmi eru dregin upp.
Slík niðurstaða gæti haft áhrif á valdajafnvægi í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og styrkt stöðu Repúblikanaflokksins.
Hæstiréttur tók í vikunni fyrir dómsmál þar sem tekist er á um réttmæti kjördæmaskipana eftir kynþætti.
Við munnlegan málflutning virtust hægrisinnaðir dómarar, sem mynda meirihluta í níu manna dóminum, hafa lítinn vilja til að halda í fyrri túlkun á lögum um kosningarétt.
Spurningar dómara þykja bera með sér efasemdir um að kynþáttur eigi að hafa áhrif við skipan kjördæma.
Málið snýst um kjördæmaskipan í Louisiana-ríki þar sem þriðjungur íbúa er svartur.
Í nýjum uppdrætti af kjördæmaskipan er aðeins gert ráð fyrir einu kjördæmi þar sem svartir eru í meirihluta, í stað tveggja áður, og þykir það styrkja stöðu repúblikana í ríkinu á kostnað demókrata.
Samtök sem berjast fyrir réttindum svartra telja að ef fordæmi skapist gæti það haft áhrif á stöðu svartra kjósenda um öll Bandaríkin.
Repúblikanar í Louisiana segja hins vegar að kjördæmaskipan sem byggir á kynþætti brjóti gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna.
Gert er ráð fyrir að Hæstiréttur kveði upp dóm í málinu í júní.
