Danskur majór dæmdur fyrir kvöldverð í boði vopnaframleiðanda

Veitingastaðurinn Kong Hans Kælder skartaði einni Michelin-stjörnu þegar majórnum var …
Veitingastaðurinn Kong Hans Kælder skartaði einni Michelin-stjörnu þegar majórnum var mútað með veigum hans árið 2011 og hlaut tíu daga dóm fyrir. Nú hefur staðurinn hlotið aðra Michelin-stjörnu til og því aldrei að vita nema dómurinn hefði orðið þyngri hefði brotið verið framið síðar. Ljósmynd/Wikipedia.org/City Foodsters

„Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis,“ er setning sem bandaríski hagfræðingurinn og Íslandsvinurinn Milton Friedman gerði ódauðlega og hefur Hæstiréttur Danmerkur nú slegið því föstu með dómi sínum í dag að það sama gildir um kvöldverðinn.

Dæmdi rétturinn að kvöldverður á hinum Michelin-stirnda veitingastað Kong Hans Kælder í Kaupmannahöfn árið 2011, sem majór í danska hernum og þáverandi innkaupastjóri í búnaðar- og aðfangadeild hersins, þáði sem boð, hefði verið mútur.

Tíu daga skilorð á neðri dómstigum

Reikninginn, um 2.500 danskar krónur, tæpar 50.000 íslenskar á gengi dagsins í dag, greiddi fulltrúi vopnaframleiðanda nokkurs sem átti sitt undir að njóta velþóknunar innkaupenda danska hersins.

Hlaut majórinn tíu daga skilorðsbundið fangelsi við meðferð málsins á neðri dómstigum danska réttarkerfisins þar sem dómendur héraðsdóms og landsréttar sammæltust um að hann hefði brotið gegn dönskum hegningarlögum.

Staðfesti Hæstiréttur þann dóm í dag.

DR

TV2

Århus Stiftstidende

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka