Ísrael segir herinn hafa tekið á móti líkum tveggja gísla sem voru í haldi Hamas.
Í yfirlýsingu frá skrifstofu forsætisráðherra Ísraels, Benjamíns Netanjahú, segir að Ísrael hafi tekið á móti, fyrir milligöngu Rauða krossins, tveimur kistum með líkum gísla sem voru afhentar hermönnum Ísraelshers og öryggissveitum Shin Bet á Gasa-svæðinu.
Stuttu síðar sagði herinn að kisturnar hefðu farið yfir á ísraelskt landsvæði þar sem borið verður kennsl á þá látnu.
Hamas skilaði fjórum líkkistum til Ísraels í gær, en í dag kom í ljós að eitt líkið var ekki af ísraelskum gísl sem var í haldi Hamas. Kom það í ljós þegar kennsl voru borin á líkin fjögur.
