Víðtækt rafmagnsleysi hefur komið upp í Úkraínu eftir nýjar loftárásir Rússa á orkuinnviði landsins, að því er fram kemur í tilkynningu frá Ukrenergo, rekstraraðila raforkukerfis landsins, í dag.
Samkvæmt Ukrenergo hefur rafmagni verið slegið af í neyð í öllum héruðum landsins nema Donetsk í austri, þar sem hörðustu bardagarnir standa yfir.
„Vegna erfiðrar stöðu í orkukerfi Úkraínu hefur rafmagni verið slegið af í neyð í öllum héruðum,“ segir í tilkynningu fyrirtækisins á samfélagsmiðlinum Telegram.
Rússneskar herdeildir hafa á undanförnum vikum aukið árásir á orku- og samgöngumannvirki Úkraínu, meðal annars á járnbrautakerfið. Yfirvöld óttast að milljónir íbúa sitji eftir án rafmagns þegar kólna fer í veðri.
„Neyðarviðgerðir standa yfir í öllum héruðum sem urðu fyrir sprengjuárásum,“ sagði Ukrenergo jafnframt og hvatti fólk til að nota rafmagn „sparlega“.
Volodymyr Zelenskyy, forseti Úkraínu, hefur sakað Rússa um að reyna að sá ringulreið með árásunum, sem hafa einnig skaðað gasgeirann.
Úkraína ræðst reglulega á olíuhreinsunarstöðvar og kolvetnisleiðslur í Rússlandi með drónum, en sú hernaðaráætlun hefur valdið því að eldsneytisverð í landinu hefur hækkað mikið frá því í sumar.
