Rússar neita að greiða 37 milljarða í skaðabætur

Dimitrí Peskov, talsmaður rússneskra yfirvalda.
Dimitrí Peskov, talsmaður rússneskra yfirvalda. AFP

Rússar munu ekki fara eftir úrskurði evrópsks dómstóls sem hefur fyrirskipað þeim að greiða Georgíu tæplega 300 milljónir dala, sem jafngildir um 37 milljörðum kr., fyrir brot sem þeir eru sagðir hafa framið frá stríðinu 2008.

Þetta segir talsmaður rússneskra yfirvalda. 

Rússar réðust inn í Georgíu árið 2008 eftir að stjórnvöld í Tbilisi hófu óvænta sókn gegn aðskilnaðarsinnum sem studdir voru af Moskvu og sögðu þá hafa gert stórskotaárásir á georgísk þorp.

Síðan þá hafa Rússar hernumið svæði í norður- og vesturhluta Georgíu sem ná yfir tæplega fimmtung landsins og komið á fót leppstjórnum sem hafa komið í veg fyrir endurkomu georgískra ríkisborgara að sögn stjórnvalda í Tbilisi.

Þeir hafa einnig bannað kennslu í georgísku í skólum, segja Georgíumenn.

Á þriðjudag staðfesti Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) kvartanir Georgíu og fyrirskipaði Moskvu að greiða rúmlega 253 milljónir evra (um 292 milljónir dala) í skaðabætur.

Ítrekað hunsað úrskurði dómstólsins

„Við munum ekki fara eftir úrskurðinum,“ sagði Dimítrí Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda.

Rússar sögðu sig úr Evrópuráðinu, sem MDE er hluti af, í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu árið 2022 en dómstóllinn segir að þeir séu enn ábyrgir fyrir brotum sem framin voru fyrir þann tíma.

Moskva hefur ítrekað hunsað úrskurði MDE, þar á meðal meðan þeir voru enn aðilar að Evrópuráðinu.

Georgía sleit formlega stjórnmálasambandi við Rússland í kjölfar stríðsins 2008 en hefur tekið óformleg skref til að bæta samskiptin á undanförnum árum, sem er ferli sem stjórnarandstaðan í Georgíu hefur harðlega gagnrýnt.

Þegar Peskov var spurður að því í dag hvort það að neita að greiða sektina myndi hafa áhrif á batnandi samskipti sagði hann það vera „sérstakt mál“.

Moskva viðurkennir aðskilnaðarhéruðin Abkasíu og Suður-Ossetíu í Georgíu sem sjálfstæð ríki, á meðan flest ríki heims viðurkenna þau sem georgískt yfirráðasvæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert