Búið að skila níu af 28 líkum

Ísraelskir hermenn bera kistu gíslsins Daniels Peretz.
Ísraelskir hermenn bera kistu gíslsins Daniels Peretz. AFP

Ísraelski herinn tikynnti í dag að búið sé að bera kennsl á líkamsleifar gíslanna Inbar Hayman og Mohammad al-Atrash sem var skilað til Ísraels frá Hamasliðum í gærkvöld.

„Eftir að búið var að bera kennsl  á líkin af réttarmeinafræðistofnuninni var fjölskyldum Inbar Hayman og Mohammad al-Atrash tilkynnt að lík þeirra hefðu verið endurheimt til greftrunar,“ segir í tilkynningu frá hernum.

Inbar Hayman, vegglistakona frá Haifa þekkt undir listamannanafninu „Pink“, var 27 ára þegar hún var drepin á Nova-tónlistarhátíðinni. Líkamsleifar hennar voru fluttar til Gasa. Líkamsleifar Mohammad al-Atrash, 39 ára hermanns af bedúínskum uppruna sem féll í bardaga 7. október, voru einnig fluttar til palestínska landsvæðisins.

Isaac Herzog, forseti Ísraels, við útför gíslsins Daniels Peretz.
Isaac Herzog, forseti Ísraels, við útför gíslsins Daniels Peretz. AFP

Skrifstofa forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanjahú, sagði að ríkisstjórnin deildi djúpri sorg með fjölskyldum Inbar og Mohammad og öllum fjölskyldum þeirra gísla sem féllu.

Þar með hefur líkum níu gísla verið skilað af þeim 28 látnum gíslum sem Hamas-hryðjuverkasamtökin bar að láta af hendi til fjölskyldna hinna látnu.

„Hryðjuverkasamtökin Hamas verða að standa við skuldbindingar sínar við milligönguaðila og skila líkum gíslanna í samræmi við samkomulagið. Við munum ekki gera neinar málamiðlanir í þeim efnum,“ segir í yfirlýsingu frá skrifstofu forsætisráðherrans.

Hótaði að hefja hernaðaraðgerðir á ný

Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísraels, hótaði því í gærkvöld að hefja aftur hernaðaraðgerðir ef Hamas stæði ekki við skilmála vopnahlésins. Ummæli hans komu í kjölfarið á yfirlýsingu Hamas sem sagðist hafa skilað öllum líkum sem það hefði aðgang að en að sérstakan búnað þyrfti til að ná í þær líkamsleifar sem eftir væru.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert