Dómari myrtur og landsliðsmaður skotinn

Glæpagengi hafa herjað á Ekvador undanfarin ár.
Glæpagengi hafa herjað á Ekvador undanfarin ár. AFP/Marcos Pin

Dómari í Ekvador var skotinn til bana í gær þegar hann var á leið með börnin sín í skólann, atvikið er talið tengjast starfsemi glæpahópa sem herja á landið.

Samkvæmt lögreglu var Marcos Mendoza, sem starfar sem dómari innan ekvadorska réttarkerfisins, skotinn af byssumanni á mótorhjóli í bænum Montecristi í Manabí-héraði þar sem glæpagengi hafa verið áberandi.

Giovanni Naranjo, lögreglustjóri héraðsins, sagði að liðsmenn glæpahópsins Los Lobos, sem Bandaríkin hafa skilgreint sem hryðjuverkasamtök, væru grunaðir um árásina.

Að minnsta kosti 15 dómarar og saksóknarar hafa verið drepnir í Ekvador frá árinu 2022 að sögn Humans Right Watch.

Landsliðsmaður skotinn

Sama dag var landsliðsmaðurinn Bryan Angulo, gjarnan kallaður „Cuco“, skotinn í fótinn á æfingu með knattspyrnufélagi sínu, Liga de Portoviejo.

Lögreglan handtók tvo menn í tengslum við árásina, en félagið greindi frá því að fleiri leikmenn hefðu fengið hótanir fyrir leik á föstudag.

Eiturlyfjatengdum ofbeldisbrotum hefur fjölgað til muna í Ekvador undanfarin ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert