Dómstóll Evrópusambandsins dæmdi í dag að flugfélög geti firrt sig bótaskyldu vegna seinkunar- eða aflýsingartjóns farþega í þeim tilfellum þegar eldingu slær niður í farþegaflugvélar.
Dómstóll í Austurríki vísaði máli farþega gegn flugfélaginu Austrian Airlines til Evrópudómstólsins en málið snerist um bótakröfu farþegans á hendur flugfélaginu fyrir rúmlega sjö klukkustunda seinkun á flugi hans frá Rúmeníu til Austurríkis eftir að flugvélin sem flytja átti farþegann varð fyrir eldingu og tjóni af þeim sökum.
Að sögn Evrópudómstólsins skapa eldingar „sérstakar kringumstæður sem firrt geta flugfélag bótaskyldu [...] þegar um atvik er að ræða sem kalla á skyldubundna öryggisskoðun,“ segir í dómsorði en dómstóllinn vísar því hins vegar til austurríska dómstólsins að meta hvort flugfélagið í framangreindu máli hafi gert „allar skynsamlegar ráðstafanir“ til að forðast þær aðstæður sem upp komu.
Árið 2017 úrskurðaði sami dómstóll að fugl sem rakst á flugvél hefði einnig flokkast undir „sérstakar kringumstæður“.
