Kaþólska kirkjan fyrirgefur seint

Mannfjöldi safnast saman fyrir framan Péturskirkjuna á Maríumessu 12. október. …
Mannfjöldi safnast saman fyrir framan Péturskirkjuna á Maríumessu 12. október. Sagan hermir að kirkjunnar menn fyrirgefi fórnarlömbum kynferðisofbeldis innan véa hennar seint að hafa ljóstrað upp um myrkustu hliðar kaþólsku kirkjunnar. AFP/Alberto Pizzoli

Fórnarlömb kynferðislegrar misnotkunar kaþólskra presta, nunna og annars áhrifafólks kaþólsku kirkjunnar sæta enn hefndaraðgerðum kirkjunnar manna fyrir að greina frá því sem þau voru neydd til að þola.

Frá þessu greinir rannsóknarnefnd Páfagarðs í málefnum fórnarlambanna í dag í skýrslu sem í grunninn byggir á frásögnum 40 brotaþola sem sögðu frá því sem þeir gengu í gegnum af hálfu fólks sem samkvæmt stöðu sinni hefði átt að vera takmarkalítils trausts vert en reyndist ekki.

„Bróðir minn lærði til prests,“ segir einn heimildarmannanna frá, „biskupinn tjáði fjölskyldunni að kæra mín gæti haft áhrif á framgang hans,“ og annar greindi frá því þegar prestur í kirkju bæjarins útskúfaði fjölskyldu hans frá kirkjustarfinu eftir að hann greindi frá misnotkuninni.

Þvingaðar í fóstureyðingu

Sá þriðji sagði biskup ekki hafa svarað neinu mánuðum saman eftir að hann sagði harmsögu sína. Að lokum hefðu fulltrúar biskupsstofu komið á heimili hans og reynt að sannfæra hann um að það sem gerðist hefði aldrei gerst. „Þeir sögðu að ég væri bara að baka vandræði,“ segir hann frá.

Þá hafa margir greint frá því að enn séu börn misnotuð í söfnuðum sem þegar hafi verið tilkynnt um misnotkun í. Sagði heimildamanneskja þar frá því að hún hefði horft upp á „aðra presta eiga kynferðisleg samskipti við ungar stúlkur og nunnur“ og önnur sagði að yfirstjórn kirkjunnar hefði engin afskipti af „trúarsystrum“ sem þvingaðar væru í fóstureyðingu í kjölfar þess er prestar hefðu komið vilja sínum fram.

Sár sem beri að græða

Það var Frans heitinn páfi sem kom rannsóknarnefndinni á fót um það leyti er hann tók við embætti árið 2014, á tíma þegar frásagnir og fréttir af kynferðislegri misnotkun skóku kaþólsku kirkjuna um víða veröld.

„Kirkjunni ber siðferðileg og andleg skylda til að græða þau djúpu sár sem kynferðislegt ofbeldi – framið, heimilað eða yfirhylmt af hálfu einhvers í áhrifastöðu innan kirkjunnar – hefur sært,“ segir í 103 blaðsíðna langri skýrslunni sem lögð hefur verið fyrir Leó fjórtánda páfa.

Segir þar enn fremur að téð sár verði ekki grædd án þess að kaþólska kirkjan taki ábyrgð og bæti úr þar sem þörf sé á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert