Forstjóri bresku leyniþjónustunnar MI5, Ken McCallum, varaði í dag við því að Kína ógnaði Bretlandi „á hverjum degi“.
Í ræðu í höfuðstöðvum MI5 í Lundúnum sagði McCallum að Kína, ásamt Rússlandi og Íran, hefði átt þátt í mikilli aukningu ógnar frá erlendum ríkjum. Fjöldi einstaklinga sem eru til rannsóknar fyrir þátttöku í starfsemi sem ógnar ríkinu hafi aukist um 35% á síðasta ári.
Að hans sögn hafa útsendarar MI5 reglulega komið upp um áætlanir erlendra ríkja um njósnir, skemmdarverk, íkveikjur og líkamlegt ofbeldi innan Bretlands. Þá nefndi hann einnig áreitni og hótanir gagnvart lýðræðissinnum og öðrum gagnrýnendum erlendra stjórnvalda.
„Kínverskir ríkisaðilar ógna þjóðaröryggi Bretlands, það gerist á hverjum degi,“ sagði McCallum.
Hann upplýsti að MI5 hefði nýverið gripið til aðgerða til að hindra ógn sem tengist Kína.
Viðvaranir McCallums koma í kjölfar gagnrýni á ríkisstjórn Keirs Starmers forsætisráðherra, sem hefur verið sökuð um að hafa látið niður falla mál gegn tveimur mönnum sem grunaðir voru um njósnir fyrir Kína.
