Jarðskjálfti af stærðinni 6,5 reið yfir austurhluta Papúa-héraðs í Indónesíu í dag og olli tjóni á tugum heimila og bygginga en ekki hafa borist neinar tilkynningar um mannfall, að sögn yfirvalda.
Skjálftinn varð kl. 15 á staðartíma. Upptök hans voru um 200 kílómetra frá borginni Jayapura, á um 35 kílómetra dýpi, samkvæmt Bandarísku jarðvísindastofnuninni (USGS).
Íbúar í Sarmi-héraði flúðu út úr húsum sínum þegar skjálftinn skók svæðið í um það bil þrjár sekúndur, sagði talsmaður hamfarastofnunarinnar í Indónesíu, Abdul Muhari, í yfirlýsingu.
Vitað er um miklar skemmdir á 20 húsum og 30 hús eru lítillega skemmd eftir skjálftann að hans sögn.
Indónesía, sem samanstendur af fjölmörgum eyjum, verður reglulega fyrir jarðskjálftum vegna legu sinnar á eldhringnum svokallaða í Kyrrahafinu.

