Öryggisvörðurinn sakfelldur fyrir njósnir

Dómurinn yfir öryggisverðinum fyrrverandi við bandaríska sendiráðið í Ósló féll …
Dómurinn yfir öryggisverðinum fyrrverandi við bandaríska sendiráðið í Ósló féll í Héraðsdómi Óslóar í morgun. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Fyrrverandi öryggisvörður í bandaríska sendiráðinu í Ósló hlaut í morgun þriggja ára og sjö mánaða fangelsisdóm í Héraðsdómi Óslóar fyrir njósnir í þágu Írana og Rússa en var sýknaður af ákærulið um stórfellda spillingu.

Carl Fredrik Fari héraðssaksóknari kveðst ánægður með niðurstöðuna og segir við norska ríkisútvarpið NRK að augljóst sé að héraðsdómur deili þeirri sýn sem ákæruvaldið hafði á sönnunargögn og túlkun málsatvika.

Fór ákæruvaldið fram á sex ára fangelsisdóm yfir öryggisverðinum fyrrverandi í málinu sem er fyrsta njósnamál sinnar tegundar í Noregi þar sem í byrjun var alls ekki ljóst hvort upplýsingarnar sem maðurinn afhenti teldust leynilegar í skilningi þeirra greina norska hegningarlaga sem fjalla um njósnir.

Voru málsatvik þau að maðurinn ferðaðist til Serbíu þar sem hann afhenti rússneskum tengilið gögn frá sendiráðinu gegn greiðslu 10.000 evra, jafnvirði 1,4 milljóna íslenskra króna. Þá var honum gefið að sök í ákæru að hafa farið til Tyrklands og hitt þar útsendara íranskra stjórnvalda sem hann afhenti einnig gögn, að þessu sinni mót greiðslu 100.000 norskra króna í rafmyntinni bitcoin, en upphæðin nemur 1,2 milljónum íslenskra króna.

Hitti þekktan rússneskan njósnara

Að áliti héraðsdóms voru upplýsingarnar sem ákærði lét af hendi þess eðlis að ekki einvörðungu væru þær til þess fallnar að skaða hagsmuni Bandaríkjanna heldur einnig „grundvallarhagsmuni Noregs“.

Gaf ákærði þær skýringar að viðhorf sendiráðsstarfsfólks gagnvart átökunum á Gasasvæðinu hefðu verið þess lags að hann hafi ákveðið að setja sig í samband við rússneska aðila fyrst og svo íranska. Hitti hann rússneska tengiliðinn Vladimír Kalínov í Serbíu í fyrra en norska öryggislögreglan PST þekkir til Kalínovs sem er talinn rússneskur njósnari og hefur verið við störf víða um heim á vegum Rússa, meðal annars í Búlgaríu og við rússneska sendiráðið í Ósló á fyrsta áratug aldarinnar.

Játaði ákærði brot sín undanbragðalaust og hlaut fyrir vikið þriðjungi vægari dóm en ella hefði verið. Hins vegar hafi háttsemi hans verið í beinni mótsögn við starf hans í sendiráðinu og það að hann hafi tekið við greiðslum frá erlendu ríkjunum hafi ekki getað talist falla undir starfsskyldur hans.

NRK

Rett24

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka