Spænska lögreglan rannsakar nú andlát Isaks Andic, stofnanda tískurisans Mango, sem mögulegt manndráp og beinist rannsóknin að syni hans.
Andic, sem var 71 árs, lést í desember í fyrra þegar hann féll til bana í fjallgöngu rétt utan við Barselóna á Spáni.
Dauði hans vakti mikla athygli þar sem hann hafði byggt upp eitt stærsta tískufyrirtæki Evrópu sem rekur um 2.800 verslanir víða um heim.
Samkvæmt dagblaðinu El País hefur lögreglan í Katalóníu nú breytt rannsókninni og metur hún andlátið nú sem mögulegt manndráp en ekki sem slys.
Rannsóknin beinist nú að syni hans, Jonathan Andic, sem var einn á vettvangi með föður sínum þegar slysið átti sér stað.
Í frétt El País segir að ósamræmi hafi verið í framburði Jonathans í skýrslutökum sem vakti grunnsemdir.
Vitnisburður hans hafi ekki samræmst vettvangsrannsókn lögreglu í Montserrat-fjöllunum.
Í annarri skýrslu frá Estefaniu Knuth, eiginkonu Isaks Andic, kemur fram að samband feðganna hafi verið stirt.
Í yfirlýsingu fjölskyldunnar segir að hún hafi fullt traust til þess að rannsókninni ljúki fljótlega og sakleysi Jonathans verði sannað.
Isak Andic fæddist í Istanbúl og var talinn meðal auðugustu manna Spánar. Forbes metur auð hans og fjölskyldu hans á um 4,5 milljarða bandaríkjadala.
Andic stofnaði Mango í Barselóna árið 1984 og undir hans stjórn óx fyrirtækið hratt og er nú með starfsemi í yfir 120 löndum.