Trump og Pútín hyggjast funda á ný

Undirbúningur fundarins er nú þegar hafinn.
Undirbúningur fundarins er nú þegar hafinn. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hyggst funda með Vladimír Pútín, forseta Rússlands, í Búdapest eftir árangursríkt símtal þeirra fyrr í dag.

Þessu greindi hann frá í færslu á samfélagsmiðlinum Truth Social og sagði fundinn ætlaðan til að kanna möguleika á að binda enda á stríðið í Úkraínu.

Annar fundurinn

Dagsetning fundarins hefur ekki verið ákveðin en þetta verður í annað sinn sem leiðtogarnir hittast frá því Trump tók við embætti forseta á nýjan leik.

Trump sagði jafnframt að háttsettir embættismenn beggja ríkja, þar á meðal Marco Rubio utanríkisráðherra Bandaríkjanna, myndu funda í næstu viku.

Rússar hafi átt frumkvæðið

Yfirvöld í Rússlandi hafa nú þegar hafist handa við að undirbúa fundinn. Að sögn Júrí Ushakov, talsmanns rússneskra stjórnvalda, áttu Rússar frumkvæðið að símtalinu fyrr í dag.

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, kemur til Bandaríkjanna á morgun til að ræða við Trump um mögulega afhendingu bandarískra Tomahawk-flauga.

Flaugarnar hafa drægni upp á allt að 1.600 kílómetra og gætu náð inn fyrir rússnesk landamæri.

Trump hefur áður varað við að afhending þeirra gæti falið í sér stigmögnun átakanna en sagðist jafnframt íhuga að senda þær ef ekki næðist samkomulag um frið.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka