Fyrrverandi ráðgjafi Trumps ákærður

John Bolton.
John Bolton. AFP

John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, hefur verið ákærður fyrir að halda eftir leynilegum og viðkvæmum upplýsingum og miðla þeim. Hann neitar sök.

BBC greinir frá. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna lagði fram mál gegn honum fyrir kviðdóm í Maryland í gær, og komst kviðdómurinn að þeirri niðurstöðu að nægar sannanir væru til staðar til að ákæra Bolton.

Ákæran kemur í kjölfar húsleitar alríkislögreglunnar (FBI) á heimili og skrifstofu Bolton í ágúst, sem hluti af rannsókn á meðferð trúnaðargagna.

Bolton, sem er 76 ára gamall, er þriðji andstæðingur forsetans sem ákærður hefur verið á síðustu vikum. Hann gæti átt yfir höfði sér áratugalanga fangelsisvist.

Samkvæmt 26 blaðsíðna ákæru, sem lögð var fram fyrir dómstólinn er Bolton ákærður fyrir átta brot vegna miðlunar á þjóðaröryggisupplýsingum og tíu brot vegna ólögmætrar geymslu slíkra upplýsinga.

Sakar Trump um að reyna að hefna sín

Saksóknarar saka Bolton um að hafa ólöglega sent mikið trúnaðarmerktar upplýsingar um þjóðaröryggi Bandaríkjanna með persónulegum tölvupósti og öðrum skilaboðaforritum.

„Þessi skjöl innihéldu upplýsingar um væntanlegar árásir, erlenda andstæðinga og samskipti við önnur ríki,“ segir í dómsskjölunum.

Í yfirlýsingu sinni sagði Bolton að hann hlakkaði til að verja „lögmæta háttsemi“ sína fyrir dómstólum og sakaði Trump um að reyna að hefna sín á honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert