Hafnar framsali manns vegna skemmdarverka á Nord Stream

Manninum, Volodimír Zúravljov, hefur verið sleppt úr haldi.
Manninum, Volodimír Zúravljov, hefur verið sleppt úr haldi. AFP

Pólskur dómstóll hafnaði í dag framsalsbeiðni frá Þýskalandi vegna úkraínsks manns sem grunaður er um aðild að skemmdarverkunum á Nord Stream-gasleiðslunum árið 2022, en leiðslurnar tengja Rússland við Evrópu.

Dómarinn sagði að þýska beiðnin „ætti ekki rétt á sér“ og fyrirskipaði að Úkraínumanninum yrði sleppt.

Ákvörðunin kemur nokkrum dögum eftir að hæstiréttur Ítalíu kvað upp svipaðan úrskurð og neitaði að framselja annan úkraínskan mann, sem er einnig grunaður í málinu, til Þýskalands.

Dómarinn Dariusz Lubawski kvað upp úrskurðinn.
Dómarinn Dariusz Lubawski kvað upp úrskurðinn. AFP

Hinar umdeildu Nord Stream-leiðslur, sem höfðu flutt rússneskt gas til Evrópu í mörg ár, skemmdust í gríðarlegum sprengingum aðeins nokkrum mánuðum eftir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022.

„Máli lokið,“ skrifaði Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, á X og fagnaði ákvörðuninni.

Maðurinn sem var handtekinn í úthverfi Varsjár þann 30. september hafði verið eftirlýstur af Berlín samkvæmt evrópskri handtökuskipun.  Hann var auðkenndur sem Volodimír Z. og var sagður kenna köfun.

Að sögn þýskra saksóknara var hann hluti af hópi einstaklinga sem komu fyrir sprengibúnaði á Nord Stream 1 og Nord Stream 2-leiðslunum nálægt dönsku eyjunni Borgundarhólmi í september 2022.

Fjölmiðlar fygldust grannt með málinu.
Fjölmiðlar fygldust grannt með málinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert