Fimm manns sæta nú ákæru fyrir Héraðsdómi Norður-Troms og Senja í Noregi fyrir að hafa tímabilið september 2023 til mars 2024 smyglað umtalsverðu magni fíkniefna frá Svíþjóð og norsku höfuðborginni Ósló til hins norðlæga Troms-fylkis í Noregi þar sem meðal annars bæinn Tromsø er að finna.
Létu mennirnir í veðri vaka að þeir stunduðu mjög skíðaferðir í fjalllendinu við landamæri Svíþjóðar og Troms. Í byrjun ferðanna sóttu þeir þó fíkniefni til Stokkhólms og Uppsala í Svíþjóð, tóku svo lest til nyrstu véa Svíþjóðar og fóru úr henni við landamæri Noregs og Svíþjóðar á Björkliden-lestarstöðinni.
Á fjallahóteli sem þeir gistu á pökkuðu þeir svo í bakpoka sína hefðbundnum viðlegu- og útivistarbúnaði en einnig umtalsverðu magni fíkniefna, einkum kókaíni og hassi sem þeir sóttu til Svíþjóðar í byrjun farar.
Eftir að lögregla fékk veður af þessum reglulegu ferðum hóf hún að fylgjast með mönnunum fimm og greip einn þeirra fyrst í febrúar í fyrra með tvö kílógrömm af amfetamíni, níu kíló af hassi og 90 grömm af kókaíni en héldu handtökunni leyndri. Hinir voru svo teknir í einni skíðaferðinni með hálft kílógramm af kókaíni og þrjú kíló af hassi.
Sá sem fyrst var handtekinn hefur játað en hinir fjórir tekið mismunandi sakarafstöðu. Einn þeirra, maður á fertugsaldri, er talinn höfuðpaurinn.
Vegna samverknaðar mannanna við skipulag ferðanna eiga þeir á hættu að hljóta dóm samkvæmt „mafíuákvæðinu“ svokallaða í norskum hegningarlögum sem beitt er í málum er snúast um skipulagða glæpastarfsemi og gæti refsing hvers þeirra um sig orðið sex ára fangelsi.
Aðili í Svíþjóð, sem mennirnir vísuðu jafnframt til sem Játvarðs konungs, „King Edward“ í samskiptum sín á milli, er að haldi norskrar og sænskrar lögreglu Ismail Abdo, einnig nefndur „jarðarberið“, stofnandi og innsti koppur í búri Rumba-glæpagengisins sænska.