Jarðskjálfti af stærðinni 6,1 skók suðurhluta Filippseyja að því er fram kemur hjá Jarðvísindastofnun Bandaríkjanna, aðeins viku eftir að tveir öflugir skjálftar riðu yfir landið.
Engar tilkynningar hafa borist um mannfall eða tjón að sögn björgunaraðila sem ræddi við AFP-fréttaveituna.
Að sögn Jarðvísindastofnunar Bandaríkjanna varð skjálftinn nærri Dapa-sveitarfélaginu í Surigao del Norte-héraði á um það bil 69 kílómetra dýpi.
Fyrir viku síðan urðu tveir sterkir jarðskjálftar á Filippseyjum, annar 7,4 og hinn 6,7 að stærð sem kostuðu að minnsta kosti átta manns lífið. Áður hafði skjálfti að stærðinni 6,9 riðið yfir Cebu-hérað í miðhluta Filippseyja þar sem 72 týndu lífi og 72 þúsund hús eyðilögðust.
Jarðskjálftar eru nær daglegt fyrirbæri á Filippseyjum, sem liggja á Kyrrahafseldhringnum svokallaða.
