Donald Trump Bandaríkjaforseti varaði við því í gær að héldu liðsmenn Hamas-hryðjuverkasamtakanna uppteknum hætti við að myrða fólk á Gasasvæðinu ættu stjórnvöld hans ekki annars úrkosti en „að fara inn og drepa þá“.
Myndefni hefur undanfarna daga birst í heimsmiðlunum sem sýnir vígamenn, skrýdda grænum höfuðböndum Hamas-samtakanna, skjóta fólk til bana í hreinum aftökum þar sem fórnarlömbin eru Palestínumenn sem Hamas-liðar telja að hafi veitt Ísraelsher liðsinni í stríði síðustu tveggja ára.
„Haldi Hamas áfram að drepa fólk á Gasa, sem var ekki umsamið, munum við ekki eiga aðra kosti en að fara inn og drepa þá,“ sagði Trump í gær í pistli á samfélagsmiðli sínum, Truth Social, og bætti því síðar við að bandarískur herafli kæmi hvergi að þeim aðgerðum sem hótun hans snerist um.
„Það verðum ekki við, við þurfum ekki að fara,“ sagði hann í skrifstofu sinni í Hvíta húsinu í gær. „Það er fólk þarna mjög nærri, alveg í nágrenninu, sem mun fara og vinna verkið auðveldlega, en það verður með okkar stuðningi,“ sagði forsetinn.
Áður en til aðvörunarinnar í garð Hamas kom hafði Trump sagt það ólíklegt að Bandaríkjaher þyrfti að koma að friðargæslu á meðan samningamenn glíma við að binda endi á stríðið á Gasa.
Engu að síður má greina annað hljóð í strokki Trumps nú en þegar hann var bjartsýnin uppmáluð í kjölfar þess er samningar um vopnahlé náðust. Lýsti forsetinn stríðinu þá „lokið“ og gerði lítið úr fregnum af því að Hamas-liðar eltu nú uppi svokölluð gengi á palestínsku yfirráðasvæði – jafnvel þótt myndefni hefði birst því til jarteikna að aftökur á almannafæri ættu sér stað.