Trump veitir George Santos lausn úr fangelsi

George Santos þegar hann var nýkjörinn þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.
George Santos þegar hann var nýkjörinn þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. AFP

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur veitt fyrrverandi þingmanninum George Santos lausn úr fangelsi og fyrirskipað að hann verði látinn laus þegar í stað.

Santos, sem áður sat í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir Repúblikanaflokkinn, var dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir fjársvik og auðkennisþjófnað. Er hann helst þekktur fyrir að hafa logið um hina ótrúlegustu hluti. 

Í færslu á samfélagsmiðlum sagði Trump að Santos hefði fengið „hrikalega meðferð“ og bætti við: „Ég hef því undirritað skjal sem leysir George Santos tafarlaust úr fangelsi.“

Þetta kemur fram í frétt BBC um málið.

Fjölmargar alvarlegar ásakanir

Santos var rekinn úr fulltrúadeild Bandaríkjaþings árið 2023 eftir að siðanefnd þingsins birti ítarlega skýrslu með fjölmörgum alvarlegum ásökunum um svik og misferli. Hann er sá sjötti í sögu Bandaríkjaþings sem hefur verið vikið úr embætti á þennan hátt.

Þingmaðurinn fyrrverandi játaði að hafa stolið auðkennum 11 einstaklinga, þar á meðal ættingja, og var dæmdur í sjö ára fangelsi í apríl.

Dómarinn sagði við úrskurðinn: „Þú varst kosinn út á orð þín, sem voru flest lygar.“

Trump réttlætti ákvörðun sína með því að vísa til demókratans Richard Blumenthal öldungadeildarþingmanns, sem hann sakaði um að hafa logið um herþjónustu sína.

„Það er miklu verra en það sem George Santos gerði,“ skrifaði Trump og bætti við að Santos hefði „alltént haft hugrekki, sannfæringu og greind til að styðja repúblikana ávallt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert