11 úr sömu fjölskyldunni drepin á Gasasvæðinu

Ísraelskir hermenn færa sig meðfram landamæragirðingunni milli Ísraels og Gasasvæðisins …
Ísraelskir hermenn færa sig meðfram landamæragirðingunni milli Ísraels og Gasasvæðisins 10. október. AFP

Ellefu manns, öll úr sömu fjölskyldu, létust þegar strætisvagn sem þau voru í varð fyrir árás ísraelsks skriðdreka á norðurhluta Gasasvæðisins í gærkvöld.

Þetta kemur fram í tilkynningu almannavarna á Gasa sem reknar eru af Hamas-hryðjuverkasamtökunum.

Abu Shaaban fjölskyldan var á leið heim í Zeitoun-hverfið í Gasaborg til að skoða hús sitt þegar árásin átti sér stað. Meðal hinna látnu eru konur og börn.

Atvikið er það mannskæðasta sem tengst hefur Ísraelsher á Gasasvæðinu frá því vopnahlé tók gildi fyrir átta dögum.

„Grunsamlegt ökutæki“

Ísraelski herinn segir að hermenn hafi skotið á „grunsamlegt ökutæki“ sem farið hafi yfir hina svokölluðu gulu línu, sem afmarkar svæðið sem Ísrael heldur enn undir hernámi. Hermenn hafi skotið aðvörunarskotum en þar sem vagninn hafi haldið áfram að nálgast hafi skriðdrekinn svarað „í samræmi við reglur og samkomulag“.

Hamas-samtökin segja fjölskylduna hins vegar hafa verið skotmark án nokkurrar réttlætingar.

Talsmaður borgaralegrar verndar, Mahmud Bassal, segir að fólkið hafi aðeins verið að reyna að athuga með heimili sitt þegar það var skotið. Segir hann marga Palestínumenn ekki vita hvar mörk ísraelskra hersvæða liggi, þar sem línan sé ekki merkt á jörðu.

Gera á gulu línuna greinilegri

Israel Katz, varnarmálaráðherra Ísaraels, hefur sagt að herinn muni setja upp sýnileg merki til að gera staðsetningu línunnar greinilegri.

Samkvæmt heilbrigðisráðuneyti Hamas hafa að minnsta kosti 67.900 manns látist í ísraelskum árásum á Gasasvæðinu frá því stríðið hófst eftir árás Hamas á Ísrael 7. október í fyrra, þegar um 1.200 manns voru drepnir og 251 tekin í gíslingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert