Írönsk stjórnvöld tilkynntu í dag að landið telji sig ekki lengur bundið af takmörkunum á kjarnorkuáætlun sinni, eftir að tíu ára samningur þess við helstu stórveldi rann út. Þrátt fyrir það undirstrika stjórnvöld í Teheran að þau séu áfram skuldbundin diplómatískum leiðum og samningaviðræðum.
„Frá og með nú eru öll ákvæði samkomulagsins frá 2015, þar á meðal þau sem varða takmarkanir á kjarnorkuáætlun Írans og tengd eftirlitskerfi, talin falla úr gildi,“ segir í yfirlýsingu utanríkisráðuneytis Írans sem birt var í dag, en samningur um takmarkanir á áætluninni rann út í dag.
„Íran lýsir eindreginni skuldbindingu sinni við diplómatískar lausnir,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.
Samningurinn, sem undirritaður var árið 2015, fól í sér að Íran drægi úr kjarnorkuáætlun sinni gegn afléttingu efnahagslegra refsiaðgerða. Á síðari árum hefur hann þó verið í uppnámi eftir að Bandaríkin drógu sig úr samkomulaginu árið 2018.
