Krefst 20 ára fangelsis yfir manni sem njósnaði um hann

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks.
Julian Assange, stofnandi WikiLeaks. AFP

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, hefur kallað eftir því að eigandi öryggisfyrirtækis sem njósnaði um Assange að beiðni Bandaríkjanna verði dæmdur í 20 ára fangelsi á Spáni. 

David Morales hefur meðal annars verið ákærður fyrir njósnir, mútur, peningaþvætti og ólöglega vörslu vopna. 

Assange var látinn laus úr fangelsi í Bretlandi í júní í fyrra eftir að hann gerði samkomulag við bandarísk yfirvöld þar sem hann stóð frammi fyrir að vera ákærður fyrir að leka trúnaðarupplýsingum. Hann var fangelsaður í fimm ár.

Þar áður hafði hann eytt sjö árum í sendiráði Ekvador í Lundúnum þar sem reyndi að koma í veg fyrir að verða framseldur.

Á árunum 2015 til 2018 annaðist spænska fyrirtækið Undercover Global öryggismál sendiráðsins. 

Fyrirtækið er í eigu Morales, fyrrverandi hermanns, sem bíður nú réttarhalda á Spáni. 

Í beinu streymi 

Lögfræðiteymi Assange heldur því fram að árið 2016 hafi Morales og bandarísk yfirvöld komist að samkomulagi um að miðla upplýsingum sín á milli um Assange. 

Spænskur dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að Morales hefði njósnað um Assange og afhent „upplýsingar sem aflað var ólöglega“ um hann og aðra einstaklinga, þar á meðal nokkra forseta í Suður-Ameríku sem Assange hafði verið í sambandi við. 

Spænski dómarinn sagði að árið 2017 hefði Morales sett upp nýjar öryggismyndavélar í sendiráðinu, sem ólíkt fyrri myndavélum, tóku upp trúnaðarsamtöl sem Assange átti við lögfræðinga, fjölskyldumeðlimi og opinberar persónur. 

Morales sagði tæknimönnum að stilla myndavélakerfið þannig að hægt væri að fylgjast með sendiráðinu í beinu streymi. 

„Hann ætlaði að opna tvær streymisrásir á netinu, eina opinbera fyrir Ekvador og aðra fyrir „vini Bandaríkjanna“ sem vildu að Assange yrði framseldur,“ sagði dómarinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka