George Bush yngri, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, minnist varaforseta síns, Dick Cheney, sem lést í morgun.
„Andlát Richards B. Cheney er missir fyrir þjóðina og harmur fyrir vini hans. Laura [Bush] og ég munum minnast Dick Cheney sem þess sóma- og heiðursmanns sem hann var,“ segir Bush í tilkynningu, en þeir þjónuðu saman í Hvíta húsinu árin 2001-2009.
Að sögn fjölskyldu hans lést Cheney af völdum lungnabólgu og hjarta- og æðasjúkdóma, en hann hafði glímt við hjarta- og æðasjúkdóma stærstan hluta ævi sinnar og lifað af nokkur hjartaáföll, það fyrsta aðeins 37 ára gamall, árið 1978.
„Sögubækurnar munu minnast hans sem eins besta embættismanns sinnar kynslóðar – föðurlandsvinar sem sýndi heilindi, mikla greind og einurð í hverju því embætti sem hann gegndi.“
Bush rekur það meðal annars að fyrst hafi Cheney ekki átt að vera varaforsetaefnið sitt.
Cheney hafi í fyrstu fengið það verkefni að finna hæfan varaforsetaframbjóðanda með Bush, en eftir ítarleg samtöl við hann hafi Bush sannfærst um að Cheney væri sjálfur best til þess fallinn að gegna embættinu.
„Í löngum viðræðum okkar um þá eiginleika sem varaforseti ætti að búa yfir – mikilli reynslu, þroskaðri dómgreind, staðfestu og tryggð – áttaði ég mig á því að Dick Cheney var sá sem ég þurfti á að halda. Ég er enn þakklátur fyrir að hann var mér við hlið næstu átta árin,“ segir Bush og bætir við:
„Dick var róleg og yfirveguð nærvera í Hvíta húsinu á tímum mikilla áskorana fyrir þjóðina. Ég reiddi mig á heiðarleg og einlæg ráð hans og hann brást aldrei trausti mínu. Hann stóð fastur á sannfæringu sinni og setti frelsi og öryggi bandarísku þjóðarinnar í forgang.“