Dick Cheney látinn

Cheney árið 2017.
Cheney árið 2017. AFP

Dick Cheney, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, er látinn 84 ára að aldri.

Frá þessu greina fjölmiðlar vestanhafs.

Cheney var 46. varaforseti Bandaríkjanna, í forsetatíð George W. Bush á árunum 2001-2009.

Að sögn fjölskyldu hans lést Cheney af völdum lungnabólgu og hjarta- og æðasjúkdóma, en hann hafði glímt við hjarta- og æðasjúkdóma stærstan hluta ævi sinnar og lifað af nokkur hjartaáföll, það fyrsta aðeins 37 ára gamall, árið 1978.

Hann naut þó margra ára á eftirlaunum eftir hjartaígræðslu árið 2012, sem hann kallaði „gjöf lífsins“.

„Eiginkona hans til 61 árs, Lynne, dætur hans, Liz og Mary, og aðrir fjölskyldumeðlimir voru hjá honum þegar hann lést,“ segir í yfirlýsingu frá fjölskyldunni.

Breyttur maður eftir 11. september

Cheney hefur sagt hryðjuverkin gegn tvíburaturnunum í New York þann 11. september 2001 hafa breytt sér til frambúðar.

Hann var staðráðinn í að hefna fyrir árásir al-Kaída og beita valdi Bandaríkjanna um öll Mið-Austurlönd með ný-íhaldssamri kenningu um stjórnarskipti og fyrirbyggjandi stríð.

„Á þessari stundu vissir þú að þetta var viljaverk. Þetta var hryðjuverk,“ sagði hann um þennan sögulega dag í viðtali við John King á CNN árið 2002.

Síðar á ævinni sagði hann árásirnar hafa skilið eftir sig yfirþyrmandi ábyrgðartilfinningu um að tryggja að slík árás á Bandaríkin myndi aldrei endurtaka sig.

Sú skoðun að hann hafi verið eini drifkrafturinn á bak við svokallað „stríð gegn hryðjuverkum“ og hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna í Írak og Afganistan er þó sögð villandi, í umfjöllun CNN.

Gagnrýninn á Trump

Cheney var áhrifamikill og umdeildur í áratugi.

Á seinni árum var hann þó að mestu útskúfaður úr flokki sínum vegna harðrar gagnrýni sinnar á Trump, þrátt fyrir að vera enn mikill íhaldsmaður sjálfur.

Eftir sögulegan stjórnmálaferil greiddi hann sitt síðasta atkvæði í forsetakosningum árið 2024 frjálslyndum demókrata, Kamölu Harris.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert